Blaðamannafélag Íslands undirritar kjarasamning

Formenn samninganefnda SA og BÍ, Maj-Britt Briem og Sigríður Dögg …
Formenn samninganefnda SA og BÍ, Maj-Britt Briem og Sigríður Dögg Auðunsdóttir, undirrita kjarasamning í dag að viðstöddum Aðalsteini Leifssyni, settum sáttasemjara. Ljósmynd/Blaðamannafélag Íslands

Blaðamannafélag Íslands hefur undirritað kjarasamning við Samtök atvinnulífsins (SA).

Þetta staðfestir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ, í samtali við mbl.is. Þá hafa SA einnig undirritað samning við BÍ/Ríkisútvarpið vegna Félags fréttamanna. 

Er blaðamaður náði tali af Sigríði Dögg var hún að gæða sér á vöfflum í Karphúsinu. 

„Þetta eru eins góðir samningar og við teljum okkur hafa geta náð við þær aðstæður sem við erum að semja í,“ segir hún. 

„Við vissum náttúrulega að okkur væru settar ákveðnar skorður með þeim [öðrum nýundirrituðum kjarasamningum], en erum að sjálfsögðu tilbúin – eins og aðrar stéttir – að taka þátt í þessum stöðugleika samningum sem að liggja þessum samningi til grundvallar.“

Samningurinn verður nú kynntur félagsmönnum BÍ. 

Blaðamaður er félagi í BÍ.

Uppfært 14:30:

Í tilkynningu á vef SA kemur fram að samningurinn gildi frá 1. febrúar 2024 til 31. janúar 2028.

Uppfært 14:50:

Samkvæmt tilkynningu á vef BÍ segir að samkvæmt samningunum taki launahækkanir gildi um næstu mánaðamót og gildi afturvirkt frá 1. febrúar.

Samningarnir eru annars vegar aðalkjarasamningur BÍ við SA, sem Árvakur, RÚV og SÝN eiga aðild að, og hins vegar kjarasamningur milli Félags fréttamanna og RÚV. Kjaraviðræður við aðra miðla fara fram í kjölfar þessara undirritana og byggja á aðalkjarasamningnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert