Sameinast um háskólasamstæðu

Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, …
Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Háskóli Íslands og Háskólinn á Hólum hafa komið sér saman um grunnatriði stjórnskipulags háskólasamstæðu. Um er að ræða stórt skref í átt að sameiningu skólanna tveggja í háskólasamstæðuna, sem fýsileikagreining gaf til kynna að yrði farsælt skref.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Það eru 16 ár frá því að síðasta sameining háskóla átti sér stað og löngu tímabært er að sameina fleiri skóla. Við erum of fámenn þjóð til að reka sjö háskóla og það að við dreifum kröftum okkar svo víða bitnar á gæðum námsins og nemendum sem eiga betra skilið. Samstarfið við háskólana tvo í þessu ferli hefur verið afar gott og ánægjulegt að sjá að þeir hafa báðir nálgast þetta stóra verkefni með opnum huga og vilja til að leysa þau úrlausnarefni sem komið hafa upp. Háskólasamstæða er þekkt erlendis og nálgun sem mun vonandi efla menntakerfið hérlendis, segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

Hugmyndafræðin að baki háskólasamstæðunni er að einstakir háskólar eða stofnanir eflist umfram það sem mögulegt væri í óbreyttu skipulagi háskóla í landinu.

Meðal markmiða háskólasamstæðu er aukin fjölbreytni í námsframboði, þróun námsgreina með áherslu á þarfir atvinnulífs og samfélags, samþætting prófgráða, aukin þjónusta við nemendur og kennara, breyttar aðferðir við kennslu og aukið rannsóknasamstarf.

Áslaug Arna bindur miklar vonir við að sameining skólanna í háskólasamstæðu efli starf sameinaðs háskóla bæði á höfuðborgarsvæðinu en ekki síður á Hólum og á Sauðárkróki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert