Skortir fjármagn til að sinna kvörtunum

Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, og Alma Möller, landlæknir.
Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, og Alma Möller, landlæknir. Samsett mynd

Kvörtunum vegna heilbrigðisþjónustu til embættis landlæknis hefur fjölgað á síðustu árum samfara því að embættinu hefur verið gert að sæta aðhaldsaðgerðum í rekstri. Landlæknir hefur verið í samskiptum við heilbrigðisráðuneytið vegna þessa allt frá 2018, það var þó ekki fyrr en nýverið að aukafjárveiting fékkst sem mun hjálpa til við að stytta málsmeðferðartímann.

Þetta kemur fram í skriflegu svari embættis landlæknis við fyrirspurnum mbl.is í tengslum við álit Umboðsmanns Alþingis þar sem umboðsmaður kallar eftir því að heilbrigðisráðuneytið grípi til markvissra aðgerða til að fækka kvörtunarmálum sem bíða afgreiðslu hjá landlækni. 

Of fáir starfsmenn sem sinna málaflokknum 

Í svari embættisins segir að embættið hafi verið meðvitað um vandann, sem hefur farið vaxandi, í mörg ár. Á sama tíma hafi embættið þurft að fækka starfsfólki vegna aðhaldsaðgerða í rekstri. 

„Á meðan hefur verið hugað að aukinni skilvirkni og tilfærslu starfsmanna á milli verkefna en málsmeðferð eins og hún er skilgreind í lögum er umfangsmikil og seinleg,“ segir í svarinu. 

Hvernig sjáið þið fram á að leysa fram úr umræddum vanda?

„Þessi vandi er fyrst og fremst til kominn vegna þess að of fáir starfsmenn sinna málaflokknum og þurfa auk þess að sinna fleiri lögbundnum verkefnum embættisins,“ segir í svarinu og árétt að kvörtunum hafi fjölgað milli ára. Sér í lagi flóknum og umfangsmiklum kvörtunum. 

„Stöðugildum á því sviði embættisins sem fer með rannsókn kvartana og atvika í heilbrigðisþjónustu hefur heldur fækkað í takt við árlegar aðhaldskröfur.“

Óafgreiddur fjöldi kvartana frá fyrri árum

Sjáið þið fram á að geta sett ykkur markmið um að leysa þetta fyrir einhvern ákveðinn tíma?

„Unnið hefur verið að lausn vandans undanfarin ár og allra leiða leitað, án þess að komi niður á gæðum rannsókna og úrvinnslu mála. M.a. hafa stöðugildi verið færð til milli verkefna og verklagi verið breytt.“

Í því samhengi bendir embættið á að kvörtunum hafi fækkað árin 2022 og 2023 miðað við fyrri ár. Það hafi einkum verið vegna þess að fleiri kvartanir flokkast nú sem athugasemdir við þjónustu. 

„Málsmeðferð slíkra athugasemda er mun einfaldari en málsmeðferð kvartana,“ segir í svarinu. 

Þrátt fyrir þetta er óafgreiddur fjöldi kvartana frá fyrri árum. Markmið embættisins er því að ljúka við afgreiðslu allra kvartana sem borist hafa fyrir lok árs 2024, fyrir lok árs 2025. Þetta markmið er þó háð fjárheimildum og því að það takist að ráða sérfræðinga til starfa. 

„Embættið fékk sérstaka aukafjárheimild á yfirstandandi ári til að sinna kvartanamálum. Það sem helst þarf nú er að fá til starfa lækna með viðeigandi þekkingu og reynslu sem og fjármuni til kaupa á álitum óháðra sérfræðinga, sbr. málsmeðferð skv. lögum, sem og að tryggja fjárheimildir næsta ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert