Auglýst eftir framboðum í forvali VG

Kjörstjórn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á höfuðborgarsvæðinu hefur auglýst eftir framboðum í forval Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs vegna alþingiskosninga 2007 í kjördæmunum Reykjavík suður, Reykjavík norður og Suðvesturkjördæmi.

Forvalið fer fram 2. desember næstkomandi samkvæmt reglum sem samþykktar hafa verið í aðildarfélögum VG sem um ræðir. Markmið forvalsins er að velja fjóra efstu frambjóðendur flokksins í hverju þessara kjördæma í næstu alþingiskosningum og eru niðurstöður þess leiðbeinandi fyrir kjörstjórn við röðun frambjóðenda á lista, að því er segir í tilkynningu.

Framboðsfrestur er til kl. 17.00 laugardaginn 11. nóvember 2006 og skulu tilkynningar um framboð berast skriflega fyrir þann tíma. Þeir sem vilja stinga upp á frambjóðanda eiga einnig að koma uppástungum sínum skriflega til kjörstjórnar eigi síðar en 4. nóvember.

Kosningarétt í forvalinu hafa allir félagsmenn í VGR og VGSV sem skráðir eru fyrir klukkan 17:00, þann 25. nóvember 2006.

Kjörstjórn VG á höfuðborgarsvæðinu skipa Einar Ólafsson, Margrét Pétursdóttir, Svanhildur Kaaber, Sverrir Jakobsson og Úlfar Þormóðsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert