Magnús Þór: Hækka ber skattleysismörk í 150.000 krónur

Magnús Þór Hafsteinsson á Alþingi í kvöld.
Magnús Þór Hafsteinsson á Alþingi í kvöld. mbl.is/Sverrir

Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagði í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum í kvöld að á sama tíma og blasi við að ekkert hafi verið gert til að rétta hlut sjávarbyggðanna, hafi ekki tekist að varðveita þorskstofninn. Byggðirnar verði að losa við „drápsklyfjar“ kvótakerfisins og auka frelsi minni báta til veiða. Frjálslyndir vilji hækka skattleysismörk í 150.00 krónur og afnema verðtryggingu á lánsfé.

Magnús sagði, að Frjálslyndi flokkurinn hafi óhikað rætt af hreinskilni um málefni innflytjenda en þar sé víða pottur brotinn, íslenskukennsla af skornum skammti og margir búi í ólöglegu húsnæði. Útlendingar séu nú um 15% af vinnuafli hér á landi, þeir keppi við Íslendinga um vinnu og þá helst iðnaðarmenn, verkamenn og fólk í verslun og þjónustu. Afleiðingarnar séu þær að hópar launafólks dragist aftur úr í kjörum. Því ætlaði flokkurinn að takmarka á ný frjálst flæði launafólks frá nýjum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

„Hér er ekki verið að tala um að loka landinu eða reka fólk í burtu heldur eingöngu lögð áhersla á það, að vegna smæðar þjóðarinnar er henni nauðsynlegt að stýra sjálf flæði erlendra nýbúa til landsins. Ef við í Frjálslynda flokknum fáum umboð kjósenda til að setjast í ríkisstjórn ætlum við að láta reyna á ákvæði EES-samningsins til að taka upp takmarkanir á frjálsri för launafólks," sagði Magnús, og bætti við að það væri Íslendingum nauðsynlegt að verja íslensk gildi og menningararf og takmarka innflutning fólks við félagslega og fjárhagslega getu þjóðarinnar til að halda uppi velferðarkerfi.

Magnús sagði nauðsynlegt að virkja innlent vinnuafl betur, breyta skattareglum og skattbyrði á lágtekjufólk. Hann sagði að verðtryggingu á lánsfé ætti að afnema og bjóða lánsfé á svipuðum kjörum og í nágrannalöndunum. Þá ætti verslun að vera frjáls með allar vörur sem leyfðar eru á innlendum markaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert