Engin áform um að hækka álögur á íslensk fyrirtæki

Sverrir Vilhelmsson

Fram kom á morgunvarðarfundi Viðskiptaráðs í morgun að enginn stjórnmálaflokkanna hyggist hækka skattlagningar á fjármálafyrirtæki á næstunni. Þá kom þar fram að neikvætt viðhorf ríki í samfélaginu í garð bankastofnana og voru ræðumenn og stjórnmálamenn sammála um að bankarnir þyrftu að fræða almenning betur um þær samfélagslegu skyldur sem þeir beri.

Halla Tómasóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs sagði í upphafi fundarins að orðið hefði bylting á Íslandi á undanförnum árum og að við búum því varla í sama landi og fyrir örfáum árum. Íslendingar hafi á undanförnum árum séð fyrirtæki stækka og skila gríðarlegum hagnaði og því spyrji almenningur hvort og þá hvernig hann hagnist persónulega af þessari framrás. Það vilji oft gleymast í þeirri umræðu að lífeyrissjóðir eigi mikið í þeim fyrirtækjum sem séu að skila góðum árangri auk þess skattgreiðslur fyrirtækjanna skili sér út í samfélagið ekki síst í þeim málaflokkum sem konur segi að skipti sig mestu máli.

Elín Sigfúsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbanka Íslands, tók í sama streng og sagði vöxt og gott gengi bankanna einnig hafa skilað miklu út í þjóðfélagið. þannig hafi hluthafar, starfsmenn og viðskiptavinir notið góðs af góðu gengi þeirra. Bankarnir sitji hins vegar undir harðri gagnrýni vegna vaxtamunar og hárra greiðslna til yfirmanna bankanna og það vilji gleymast að bankarnir þurfi að taka lán annars staðar og greiða vaxtagjöld af þeim. Þá hafi vaxtamunur minnkað mikið á undanförnum árum og meðalvaxtamunur Landsbankans sé nú í raun 2,26%. Elín sagði einnig að mikill hluti af aukinni arfsemi bankanna sé til kominn vegna aukinnar starfsemi erlendis sem skili sér inn í íslenskt þjóðfélagið. Þá skapi bankarnir aukin atvinnutækifæri á Íslandi sem séu forsendur þess að gott sé að búa á Íslandi.

Geir H Haarde forsætisráðherra sagði lækkun á tekjuskatti og fjármagnstekjuskatti til fyrirtækja hafa skilað góðum árangri og að verði haldið áfram á sömu braut verði hugsanlega hægt að lækka þessi gjöld enn frekar og einnig skattlagningu á einstakling. Þá sagði hann mikilvægt a' tryggja að bankageirinn hafi áfram góð starfsskilyrði og að við missum ekki fjármálastarfsemi úr landi. Einnig vonist hann til að hægt verði að laða hingað fjármálastarfsemi annars staðar frá, til dæmis lífeyrissjóðsstarfsemi.

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði Íslendinga ekki vera eina í heiminum og að taka verði tillit til þess í skattamálum þannig að Ísland verði áfram samkeppnishæft. Búa verði þannig um hnútana að fyrirtæki vilji vera hér og að hátekjufólk vilji borga skattana sína hér. Þá sagði hann að skoða verði aðstöðu sprotafyrirtækja og nýsköpunarfyrirtækja sérstaklega.

Margrét Sverrisdóttir, talsmaður Íslandshreyfingarinnar - lifandi lands, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri grænna, og Valdimar Leó Friðriksson, fulltrúi Frjálslynda flokksins, tóku öll í sama streng og sögðu mikilvægt að skapa hagstæða umgjörð utan um atvinnulífið og laða þannig fyrirtæki hingað til lands. Þá sagði Margrét Íslandshreyfinguna heldur vilja hafa hér mörg fyrirtæki sem borga lága skatta en nokkur skattpínd stórfyrirtæki. Margrét og Ingibjörg Sólrún sögðu einnig mikilvægt að huga að stöðugleika íslenska gjaldmiðilsins í þessu sambandi.

Valdimar og Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri grænna, sögðu flokka sína hins vegar hafa áhuga á að endurskoða reglur um álagningu fjármagntekjuskatts. Sagðist Valdimar helst vilja sjá hann lagðan af gagnvart eldri borgurum og Katrín sagðist vilja að hann yrði þrepaskiptur.

Fundurinn bar yfirskriftina „Atkvæði kvenna" en á fundinum kom fram að þar sem skoðanakannanir sýni að stór hópur kvenna hafi ekki gert upp hug sinn varðandi það hvað þær ætli að kjósa í kosningunum í vor hafi fimm konur úr atvinnulífinu verið fengnar til að varpa fram spurningum til forsvarsmanna stjórnmálaflokkanna. Konurnar voru Halla Tómasdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Elín Sigfúsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbanka Íslands, Margrét Pála Ólafsdóttir , formaður sjálfstæðra skóla, Anna Birna Jensdóttir, framkvæmdastjóri Sóltúns og Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert