Allir vilja Sundabraut og vistvænni bíla á göturnar

Eftir Baldur Arnarson baldura@mbl.is
Fulltrúar framboðanna sex til alþingiskosninganna á laugardag ræddu í vikunni með starfsmönnum Brimborgar um til hvaða leiða mætti grípa til að stuðla að öruggari og umhverfisvænni bílaumferð. Bar þar hæst forgangsröðun í útgjöldum til vegamála og hvernig megi fjölga vistvænum bifreiðum á götunum.

Fulltrúar flokkanna voru Ómar Ragnarsson, Íslandshreyfingunni, Árni Þór Sigurðsson, Vinstri grænum, Birgir Ármannsson, Sjálfstæðisflokki, Össur Skarphéðinsson, Samfylkingunni, Jónína Bjartmarz, Framsóknarflokki, og Magnús Þór Hafsteinsson, Frjálslynda flokknum.

Í fyrstu umferð umræðna um spurningar sem lagðar voru fyrir frambjóðendurna var leitað eftir afstöðu þeirra til gerðar Sundabrautar og vegaframkvæmda almennt.

Allir voru sammála um mikilvægi þess að ráðast í gerð Sundabrautar, enginn útilokaði einkaframkvæmd.

Lýstu Ómar, Jónína og Össur sig andvíg veggjöldum, Magnús vildi tvöfalda veginn frá Hvalfjarðargöngum og inn Kollafjörð, Birgir skoða kosti einkaframkvæmdar og Árni Þór hraða framkvæmdunum.

Almennt voru frambjóðendurnir hlynntir jarðgangagerð um landið.

Magnús lýsti sig hlynntan jarðgangagerð, vel væri gerlegt að ljúka fyrirhuguðum framkvæmdum víðsvegar um land á næstu tíu árum með fjögurra milljarða árlegu framlagi.

Jónína lagði hins vegar áherslu á að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar, reisa mislæg gatnamót við mót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Hún var einnig hlynnt gerð Sundabrautar, lykilatriðið í samgöngumálum væri að stytta vegalengdir milli byggðakjarna.

Össur tók undir mikilvægi þess að tvöfalda Suðurlandsveg og reisa Sundabrautina, ásamt því sem hann vildi nota umferðargöng mun meira til að leysa umferðahnúta.

Birgir vildi minna á að meira fé væri nú varið til samgöngumála en nokkru sinni og að samgönguráðherra hefði lagt fram umferðaröryggisáætlun sem fæli í sér stórátak.

Öll vilja hagræna hvata

Ómar kvaðst hlynntur því að grafa göng til að stytta vegalengdir, þau væru æskilegri en þverun fjarða.

Inntir eftir afstöðu sinni til gerðar Vaðlaheiðarganga sögðust frambjóðendurnir allir jákvæðir gagnvart henni, þótt afstaðan til hvort og þá hvernig bæri að útfæra einkaframkvæmd væri misjöfn.

Frambjóðendurnir vildu einnig stuðla að umhverfisvænni bílaflota.

Árni Þór vildi draga úr neikvæðum áhrifum bílaumferðar, auka almenningssamgöngur og greiða fyrir hjólreiðum og gangandi. Hjólreiðastígar ættu að fara á vegaáætlun líkt og reiðvegir. Þá vildi hann að Öskjuhlíðargöng yrðu grafin í Reykjavík. Einnig vildi hann bæta aðgengi að vistvænum bifreiðum og skoða norsku leiðina, þar sem gjaldatakan hefur verið sniðin að því hversu losun gróðurhúsalofttegunda er mikil.

Kvaðst Ómar vilja græn gjöld á bíla, þeir borgi sem mengi, auk þess sem hann vildi lægri gjöld á dísilbíla.

Birgir vildi stilla gjaldtöku á bíla í hóf og skoða jafnræðissjónarmið út frá mismunandi gerðum vistvænna bifreiða. Jónína sagðist vilja skoða norsku leiðina, hún væri almennt hlynnt hagrænum hvötum. Össur vildi fella niður öll gjöld á umhverfisvænstu bifreiðarnar og Magnús skoða reynslu Norðmanna af norsku leiðinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert