Segjast komin nær stjórnarmyndun og að góður andi sé í viðræðum

mbl.is/Júlíus

Fundi þeirra Geirs H. Haarde, formanns Sjálfstæðisflokks, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokks og Össurar Skarphéðinssonar, þingflokksformanns Samfylkingar, er lokið í Ráðherrabústaðnum. Að fundi loknum sögðu þau Geir og Ingibjörg að þau séu komin nær samkomulagi um stjórnarmyndun en áður en fundurinn hófst og viðræðurnar hafi verið jákvæðar og andinn góður.

Um var að ræða fyrsta formlega stjórnarmyndunarfund Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar. Þau Geir og Ingibjörg sögðu að á fundinum hefði aðeins verið byrjað að ræða málefni en ekkert hefði verið fjallað um skiptingu ráðuneyta. Sögðust þau Geir og Ingibjörg myndu funda áfram á næstu dögum.

Geir sagði við Morgunblaðið eftir fundinn aðspurður harma mjög þær yfirlýsingar, sem Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokks og Guðni Ágústsson, varaformaður, hafa gefið um að samstarfi flokkanna hafi lokið með trúnaðarbresti. Hann sagðist þó ekki vilja munnhöggvast við þá í fjölmiðlum og láta þetta verða skugga á annars farsælu stjórnarsamstarfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert