Ný ríkisstjórn kynnt fyrir forseta Íslands innan skamms

Guðlaugur Þór Þórðarson tekur við embætti heilbrigðisráðherra í nýrri ríkisstjórn. …
Guðlaugur Þór Þórðarson tekur við embætti heilbrigðisráðherra í nýrri ríkisstjórn. Hann sést hér í hópi þingmanna Sjálfstæðisflokks. mbl.is/Sverrir

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, mun ganga á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, á Bessastöðum klukkan 9:30 og tilkynna honum að ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar hafi verið mynduð. Flokksráð Sjálfstæðisflokks og flokksstjórn Samfylkingar samþykktu stjórnarmyndunina í gærkvöldi. Klukkan 11 hefur verið boðað til blaðamannafundar á Þingvöllum þar sem Geir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingar og væntanlegur utanríkisráðherra, kynna nýja ríkisstjórn og stefnuyfirlýsingu hennar.

Þá er gert ráð fyrir að ríkisráðsfundir verði á Bessastöðum á morgun þar sem gamla stjórnin kveður og nýtt ráðuneyti Geirs H. Haarde tekur við.

Auk Ingibjargar Sólrúnar verða þau Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Kristján L. Möller, Björgvin G. Sigurðsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir ráðherrar af hálfu Samfylkingar. Aðeins Jóhanna og Össur hafa áður gegnt ráðherraembætti.

Guðlaugur Þór Þórðarson er eini nýi ráðherra Sjálfstæðisflokks en þeir Geir, Björn Bjarnason, Einar K. Guðfinnsson, Árni M. Mathiesen og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gegna áfram þeim ráðherraembættum, sem þeir höfðu með höndum í fráfarandi stjórn; Einar bætir raunar við sig landbúnaðarmálum.

Fram kemur í fréttaskýringu Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu í dag, að talið sé að óánægjuradda um ráðherraskipan innan Sjálfstæðisflokks muni helst gæta frá keppinautum Guðlaugs um ráðherrastól, fólki eins og Kristjáni Þór Júlíussyni, Guðfinnu Bjarnadóttur og Bjarna Benediktssyni. Sturla Böðvarsson sé bersýnilega mjög óhress með sitt hlutskipti, að hverfa úr stól samgönguráðherra, en hann fái þó sæmdarembætti forseta Alþingis.

Þá segir Agnes að óvissa hafi verið um það hvort Björn fengi ráðherraembætti í þessari ríkisstjórn. Heimildir Morgunblaðsins hermi, að líkur séu á því að Björn hætti sem ráðherra á miðju þessu kjörtímabili og hverfi til annarra starfa. Sömu heimildir hermi, að líklegur arftaki hans á dómsmálaráðherrastól verði Bjarni Benediktsson. Það muni þó alls ekki frágengið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert