Ingibjörg Sólrún ekki að hætta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. mbl.is/Ómar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði í fréttum Stöðvar 2 að hún hefði ekki tekið ákvörðun um að hætta formennskunni. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagðist í fréttum Ríkisútvarpsins treysta Ingibjörgu Sólrúnu fullkomlega sem formanni flokksins og formannsframboð væri ekki inni í myndinni.

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, sagði á fundi Alþýðuflokksfélagsins í Reykjavík í dag, að  að Ingibjörg Sólrún  ætti að víkja úr formannssætinu og axla þannig sína ábyrgð á bankahruninu. Jón lagði jafnframt til að Jóhanna Sigurðardóttir tæki við formannsstöðunni en ella sagðist Jón sjálfur vera reiðubúinn til að gefa kost á sér sem formaður Samfylkingarinnar.

Ingibjörg Sólrún sagðist í fréttum Stöðvar 2 að núverandi flokksforusta hefði axlað sína ábyrgð á stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn með því að rjúfa það samstarf. Þá sagði hún athyglisvert, að þeir tveir flokksformenn, sem efndu til stjórnarsamstarfs 1991, hefðu báðir gefið til kynna að þeir íhuguðu að snúa aftur í pólitík ef núverandi forusta flokka þeirra létu ekki að þeirra vilja.

Þá sagði Ingibjörg Sólrún, að ef Samfylkingin vilji endurnýjun í forustu flokksins væri hún ekki viss um að Jón Baldvin sé heppilegasti kosturinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert