Vill 1.-2. sæti á D-lista

Birna Lárusdóttir.
Birna Lárusdóttir.

Birna Lárusdóttir, bæjarfulltrúi,  býður sig  fram í 1.-2. sæti  á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar í vor.

Í tilkynningu frá Birnu segir, að nú séu viðsjárverðir tímar og staða þjóðarbúsins afleit.  Þjóðin deili um orsakir hrunsins en ljóst sé að margir beri þunga ábyrgð. Þar þurfi stjórnmálaöfl að axla sinn hlut og gangast við þeim mistökum sem gerð hafa verið á liðnum árum. Þar sé Sjálfstæðisflokkurinn engin undantekning. Segist Birna vilja  taka þátt í þeirri uppbyggingu sem sé framundan með reynslu sína í farteskinu og eindreginn vilja til að halda Íslandi í fremstu röð þjóða. 

Birna er  43 ára gömul, fædd og uppalin í Reykjavík en hefur búið á Ísafirði með hléum í 17 ár. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund og BA prófi í fjölmiðlafræði frá University of Washington í Seattle í Bandaríkjunum. Hún hefur m.a. starfað sem   fréttamaður Ríkisútvarpsins á Ísafirði og setið í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar frá 1998,  lengst af þeim tíma gegnt embætti forseta bæjarstjórnar. Þá er hún varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og skipar nú 5. sæti listans. 

Birna er gift Hallgrími Kjartanssyni, lækni, og þau eiga fjögur börn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert