Gefur kost á sér í 4. sæti í forvali VG í Reykjavík

Steinunn Þóra Árnadóttir.
Steinunn Þóra Árnadóttir.

Steinunn Þóra Árnadóttir gefur kost á sé í 4. sæti í sameiginlegu
forvali Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fyrir Reykjavíkurkjördæmin
sem haldið verður í byrjun næsta mánaðar.

„Íslenskt þjóðfélag stendur frammi fyrir gríðarstórum verkefnum í kjölfar
efnahagshruns síðasta hausts. Stefna hægrimanna í efnahagsmálum, sem
fengið hefur að ráða ferðinni á liðnum árum og áratugum hefur nú valdið
þjóðinni meiri búsifjum en svartsýnustu menn hefðu getað látið sér til
hugar koma. Ljóst er að endurreisn og endursköpun íslensk samfélags kallar
á fólk sem hefur kjarajöfnuð, félagslegt réttlæti og sameiginlega velferð
að leiðarljósi.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur frá upphafi kappkostað að standa vörð um velferðarkerfið og bent á leiðir til að styrkja það enn frekar. Undirstaða slíkrar velferðar hlýtur að vera fjölbreytt og öflugt atvinnulíf, sem byggist á sjálfbærri nýtingu auðlinda og réttlátr skiptingu arðsins,“ segir í tilkynningu frá Steinunni.

Steinunn Þóra er fædd í Neskaupstað árið 1977. Hún er öryrki og stundar MA-nám í mannfræði við Háskóla Íslands.

Steinunn er annar varaþingmaður VG í Reykjavíkurkjördæmi-norður og hefur tekið sæti á Alþingi. Þar flutti hún meðal annars lagafrumvörp sem ætlað
var að koma í veg fyrir heræfingar á Íslandi eða takmarka í það minnsta skaða af þeirra völdum. Af öðrum málum má nefna þingsályktunartillögu um aðgengi fatlaðra að háskólamenntun.

Steinunn hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir ýmis félagasamtök og setið í stjórnum þeirra. Má þar nefna: Samtök herstöðvaandstæðinga, MS-félag Íslands, Reykjavíkurfélag Vinstri grænna og Öryrkjabandalag Íslands.

Eiginmaður Steinunnar er Stefán Pálsson sagnfræðingur. Þau eiga þriggja ára gamla dóttur og eiga von á öðru barni á næstu vikum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert