Of snemmt að spá um fylgið

Ólafur Þ. Harðarson
Ólafur Þ. Harðarson mbl.is/Golli

Of snemmt er að spá fyrir um hvort sú góða staða sem Samfylkingin hefur notið í skoðanakönnunum að undanförnu haldist fram að kosningum. Þetta segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Hann telur góða stöðu flokksins bæði stafa af því að Samfylkingin rauf stjórnarsamstarfið og fór í nýja stjórn sem mælst hafi vel fyrir hjá stuðningsmönnum flokksins auk þess sem Jóhanna Sigurðardóttir njóti bersýnilega mikils trausts eins og hún hafi alltaf gert sem einstaklingur.

Með uppstillingunni sem kynnt var í morgun, það er að Jóhanna Sigurðardóttir verði forsætisráðherraefni og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður, segir Ólafur forystumenn flokksins hafa leyst þann vanda sem kominn var upp með stöðu Ingibjargar. Uppstillinguna segir hann í raun sama módel og Samfylkingin var með 2003.

„Þá var Össur formannsefni og Ingibjörg forsætisráðherraefni flokksins. Þetta gekk í raun mjög vel hjá Samfylkingunni. Þótt flokknum hafi ekki tekist að fella ríkisstjórnina þá fékk hann yfir 30 prósent atkvæða sem er besti árangur sem hann hefur nokkurn tíma náð.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert