Mikilsverð stuðningsyfirlýsing

„Í heildina tekið er ég sáttur. Kjörsókn hjá okkur er með því besta sem gerðist um helgina og ég get ekki annað en verið sáttur við mína útkomu,“ segir Kristján Þór Júlíusson, alþingismaður, sem hlaut afgerandi kosningu í fyrsta sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Á kjörskrá voru 3.949 manns og greiddu 2.041 atkvæði. Kjörsókn var 51,7% og er kosningin í sex efstu sætin því bindandi.

Kristján Þór Júlíusson sóttist eftir fyrsta sætinu. 1.477 greiddu honum atkvæði í það sæti eða 72,4%.

„Þetta er mikilsverð stuðningsyfirlýsing sem ég fékk,“ segir Kristján Þór en bætir við að áhyggjuefni sé hve áhugi á þátttöku í stjórnmálum virðist fara þverrandi.

Kristján segist ánægður með þann lista sem kosinn var. Í öðru sætinu er Tryggvi Þór Herbertsson, Arnbjörg Sveinsdóttir er í þriðja, Björn Ingimarsson í fjórða, Soffía Lárusdóttir er í fimmta sæti og Anna Guðný Guðmundsdóttir í því sjötta.

„Þetta er ágætishópur sem náði vel saman í prófkjörsbaráttunni. Við setjum stefnuna á að halda að minnsta kosti því sem við fengum í síðustu kosningum,“ segir Kristján Þór en Sjálfstæðisflokkurinn fékk þrjá menn kjörna í Norðausturkjördæmi í þingkosningunum vorið 2007.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert