Stjórnin hljóp á sig í tveimur málum

Geir H. Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ræða við blaðamenn …
Geir H. Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ræða við blaðamenn í þinghúsinu í dag. mbl.is/Kristinn

Geir H. Haarde situr nú sinn síðasta dag á Alþingi, eftir 22 ára þingsetu, þar af ellefu ár sem ráðherra. Á blaðamannafundi í Alþingishúsinu í dag sagði hann að hægt væri að ljúka þingstörfum með sómasamlegum hætti á næstu dögum. Skilyrði fyrir því sagði hann hins vegar að ríkisstjórnin fallist á að hún hafi hlaupið á sig í málum er varða breytingar á kosningalöggjöf og stjórnarskrá.

„Það voru mistök að hafa ekki Sjálfstæðisflokkinn með í ráðum og ætla að valta yfir hann með þessi mál. Það mun ekki takast,“ sagði Geir. „Ég held að persónukjörsmálið sé núna fallið af sjálfu sér, þó að því sé nú borið við sem við bentum á strax við fyrstu umræðu, að það væri álitamál að tvo þriðju þingmanna þyrfti til að samþykkja þá breytingu.“ Sagði hann að margir stjórnarliðar hefðu lítinn áhuga á því að erfið prófkjörsbarátta, sem nú sé afstaðin, verði endurtekin við kosningarnar. Mikill órói sé í stjórnarflokkunum vegna málsins og margir þar kæri sig ekkert um málið. „Ótrúlegt að láta sér detta í hug að breyta reglunum eftir að leikurinn er hafinn,“ sagði Geir.

Hvað stjórnarskrána varðar sagðist Geir vonast til að málamiðlunarleið yrði fundin í því máli. „Ég vona að það geti komið einhver slík niðurstaða út úr þessu, því það fer afar illa á því að ljúka þingstörfum hér svo stuttu fyrir kosningar, með þingið í uppnámi vegna deilna um stjórnarskrána. þess vegna segi ég að heiður þingsins er að veði að mönnum takist að vinna einhverja sáttaleið í því.“

Sagði hann fara betur á því að 79. grein stjórnarskrárinnar verði breytt svo hægara verði um vik að breyta stjórnarskrá, þ.e. að þing geri tillögu um breytingar og þær tillögur fari í þjóðaratkvæði. Eftir kosningar eigi að kanna grundvöll fyrir því að setja lög um stjórnlagaþing, sem verði ráðgefandi.

Geir orðaði það svo við blaðamenn að hann léti nú af þingstörfum að sinni. Var hann þá spurður hvort orðalagið þýddi hugsanlega endurkomu í stjórnmálin að einhverjum tíma liðnum, en Geir svaraði að bragði að hann vissi ekki um neinn stjórnmálamann sem hefði látið af þátttöku í stjórnmálum án þess að orða það svona.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert