Geir: Ómaklegt hjá Davíð

Vilhjálmur Egilsson og Geir H. Haarde á landsfundinum í Laugardalshöll.
Vilhjálmur Egilsson og Geir H. Haarde á landsfundinum í Laugardalshöll. mbl.is/Heiddi

Geir H. Haarde sagði í ræðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í morgun að Davíð Oddsson hefði vegið með ómaklegum og óverðskulduðum hætti gegn Vilhjálmi Egilssyni og starfi Endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins.

Davíð sagði í ræðu sinni í gær að það væri ekki trúverðugt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að láta þann mann, sem Hreiðar Már Sigurðsson, Jón Ásgeir Jóhannesson og Hannes Smárason, hefðu fengið til þess að stýra Samtökum atvinnulífsins, hlutast til um smíði nýrra siðareglna fyrir flokkinn. Var þar Davíð að vísa til Vilhjálms Egilssonar. Davíð sagði jafnframt að skýrsla Endurreisnarnefndar væri „illa skrifað plagg.“

„Mér finnst þessi ummæli almennt séð mjög ómakleg, ekki bara í minn garð heldur líka í garð þessara 80 einstaklinga sem voru virkir í vinnuhópunum og tóku að sér að skrifa þetta rit,“ sagði Vilhjálmur Egilsson í samtali við mbl.is í gær eftir ræðu Davíðs.

Geir sagði að hann hefði gefið Vilhjálmi Egilssyni bestu meðmæli í starfið. Hann hrósaði einnig Vilhjálmi og sagði hann hafa staðið sig vel í starfi sem formaður Endurreisnarnefndar. Hann lagði einnig til að landsfundarfulltrúar greiddu atkvæði og samþykktu ályktun um endurreisn atvinnulífsins til þess að sýna tillögum nefndarinnar og starfi Vilhjálms stuðning.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert