Fordæma rangfærslur í auglýsingu

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. Kristinn Ingvarsson

Reykjavíkur Akademían (RA) hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að umsögn hennar sé rangfærð í auglýsingu þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem birt var í Morgunblaðinu í dag. Segir RA að bæði séu umsagnir fræðimanna RA um frumvarp á breytingu á stjórnarskrá slitnar úr samhengi og orðalagi breytt.

„Í Morgunblaðinu í dag birtist heilsíðuauglýsing þingmanna Sjálfstæðisflokksins þar sem vitnað er í allmargar umsagnir fræðimanna og sérfræðinga um frumvarp um breytingar á stjórnarskrá. Þar eru meðal annars tilgreindar þrjár málsgreinar þar sem vitnað er til ReykjavíkurAkademíunnar. Heldur illa hefur þó tekist til.

Í fyrstu málsgreinininni er orðalagi lítillega breytt, en það er þó meinlaust.
Önnur málsgreinin er slitin úr samhengi, en í réttu samhengi er hún svona: „Hins vegar fagnar RA tímabærri umræðu um lýðræði og stjórnarskrá. Lýðræði er ekki sjálfgefið. Það verður að vera í stöðugri endurskoðun svo grunnhugmyndir þess séu sem virkastar. RA hefur verulegar efasemdir um þau frumvarpsdrög um stjórnlagaþing sem fylgja frumvarpinu og vill benda á eftirfarandi:"

Á eftir þessari klausu í umsögn ReykjavíkurAkademíunnar fylgja tvær athugasemdir við frumvarpsdrögin um stjórnlagaþing sem fylgja sjálfu frumvarpinu um stjórnarskrárbreytingar. ReykjavíkurAkademían hefur ekki sett fram athugasemdir við stjórnlagaþingið sem slíkt.

Efasemdirnar eru einmitt settar fram í ljósi þess að um er að ræða drög að lögum sem síðan yrðu fullgerð og lögð fram á næsta þingi. Efni athugasemdanna er ábending um að leitað verði víðtækari fræðaþekkingar við gerð frumvarpsins, sem og við framkvæmd stjórnlagaþingsins.
Verra er þó með þriðju málsgreinina því hún er einfaldlega ekki tekin úr umsögn ReykjavíkurAkademíunnar.

ReykjavíkurAkademían fordæmir að umsögn hennar sé rangfærð með þessum hætti í pólitískri umræðu," að því er segir í tilkynningu frá RA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert