Flokkarnir skulda hálfan milljarð

Ljóst er á úrdrætti úr ársreikningum stjórnmálaflokkanna fyrir árið 2007, sem Ríkisendurskoðun birti nýlega á heimasíðu sinni, að fjárhagsstaða þeirra er ekki góð.

Þannig nam tap á rekstri sex stjórnmálaflokka, sem reikningar eru birtir fyrir, alls 280 milljónum króna á árinu 2007 en þá fóru fram alþingiskosningar. Skuldir flokkanna námu 503 milljónum króna í lok ársins 2007. Fimm þeirra voru með neikvætt eigið fé.

Samkvæmt reikningunum voru útgjöld Framsóknarflokksins á árinu 2007 178,2 milljónir króna. Tap á rekstrinum nam 60,3 milljónum króna  og flokkurinn skuldaði 154,1 milljón í lok ársins. Eigið fé flokksins var neikvætt um 4,4 milljónir króna. 

Útgjöld Frjálslynda flokksins nánu 88,4 milljónum króna þetta ár og tap á rekstrinum var 28,4 milljónir. Skuldir flokksins námu 29,5 milljónum í lok ársins 2007. Eigið fé var neikvætt um 27,4 milljónir króna. 

Rekstur Íslandshreyfingarinnar kostaði 32,4 milljónir króna og tap á rekstrinum nam 29,1 milljón króna þetta ár. Flokkurinn skuldaði sömu upphæð en eignir voru nánast engar.

Gjöld Samfylkingarinnar voru 277,2 milljónir króna þetta ár. Tap á rekstrinum nam 89,8 milljónum króna og skuldir flokksins í árslok 2007 voru 124,4 milljónir króna. Eigið fé var neikvætt um 27,1 milljón króna. 

Gjöld Sjálfstæðisflokksins námu 351,5 milljónum á árinu 2007 og tap á rekstrinum var 37,3 milljónir króna. Skuldir flokksins námu 75,6 milljónum króna. Eignir námu hins vegar 462 milljónum króna og eigið fé var því jákvætt um 386,4 milljónir króna. 

Rekstur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs kostaði 109,2 milljónir króna árið 2007 og tap nam 36,2 milljónum króna. Skuldir flokksins námu 90,9 milljónum.   Eigið fé var neikvætt um 26,9 milljónir króna.

Ársreikningar stjórnmálaflokkanna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert