Orkuútrásin og Fl Group

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, varði Reykjavík Energy Invest á sínum tíma og harmaði að ekki skyldi hafa orðið af útrás Orkuveitunnar og einkaaðila. Þessi áform eru núna komin í nýtt ljós.

Hann segir að ekki hafi verið hægt að sjá á sínum tíma að Fl Group hafi haft svona mikla hagsmuni í málinu og væru að skipta sér að samningum eins og síðar hafi komið í ljós í skýrslu nefndar undir forystu Svandísar Svavarsdóttur. Þá hafi auk þess komið upp  kaupréttarsamningar og annars sem hafi eyðilagt þetta endanlega.

Össur vill ekki taka svo djúpt í árinni að segja að ofurstyrkir Sjálfstæðisflokksins frá FL Group og Landsbankanum veki upp spurningar um mútur. Hann segir þó sjálfsagt að menn leiti af sér allan grun.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra er hinsvegar ómyrkari í máli og segir að Sjálfstæðisflokkurinn hljóti að sjá sér hag í því að fá allt upp á borðið sem tengist REI, samskipti, fundargerðir,  tölvupósta og síðast en ekki síst greiðslur til manna í prófkjörum.

Aðkoma FL Group hafi strax vakið athygli og samhengi málsins sé orðið tortryggilegt aftur vegna ofurstyrkja Sjálfstæðisflokksins. Þarna séu annarleg hagsmunatengsl og það þurfi að hreinsa burt þessa ljótu arfleifð þessa sjúka ástands sem hér hafi verið.  Hann segir að aðrir flokkar hefðu betur tekið sér VG til fyrirmyndar sem alla tíð hefði sett sér sínar eigin reglur of haft allt sitt bókhald opið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert