Harðar deilur á Alþingi

Grétar Mar Jónsson og Atli Gíslason á Alþingi.
Grétar Mar Jónsson og Atli Gíslason á Alþingi. mbl.is/Ómar

Heitar umræður standa nú yfir á Alþingi um árangur ríkisstjórnarinnar. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að ástandið í dag væri verra en þegar ríkisstjórnin tók við. Réttara hefði verið að kjósa strax þegar fyrri stjórn sprakk. Formenn stjórnarflokkanna mótmæltu harðlega orðum Bjarna.

Umræðurnar hófust þegar forsætisráðherra mælti fyrir þingsályktunartillögu um frestun á fundum Alþingis. Forystumenn flokkanna hafa tekist á í ræðustól og mikið verið um frammíköll og hlátur þingmanna undir ræðunum og forseti ítrekað þurft að slá í bjölluna og biðja þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð til að flytja mál sitt.

Bjarni sagði að tímanum frá því minnihlutastjórnin tók við hefði verið illa varið. Ríkisstjórnin hafi lýst því að hún ætlaði að laga ástandið en veruleikinn væri sá að atvinnuleysið hefði aukist, krónan veikst og endurreisn bankanna hafi tafist. „Tímanum hefur verið illa varið í að reyna að keyra hér í gegn mál í ágreiningi, sem þjóðin er ekki að bíða eftir. Þjóðin er að bíða eftir lausnum fyrir fyrirtækin og heimilin,“ sagði Bjarni. 

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði ræðu Bjarna alveg ótrúlega. Sjálfstæðisflokkurinn hafi lýst því í janúar að ekki ætti að kjósa fyrr en í fyrsta lagi í haust því björgunaraðgerðirnar væru svo viðamiklar. „Svo illa mat Sjálfstæðisflokkurinn í janúar að búið væri að fara með íslenskt efnahagslíf og þjóðarbúskap að það þyrfti upp undir ár til að greiða þannig úr málum að hægt væri að kjósa,“ sagði hann. Núverandi ríkisstjórn hafi haft 90 daga til að greiða úr málum svo hægt væri að kjósa við bestu mögulegar aðstæður, „og það tel ég að búið sé að gera,“ sagði hann. Það sem ekki hafi náðst í gegn hafi Sjálfstæðisflokkurinn eyðilagt, þ.e. lýðræðisumbæturnar með málþófi.

Bjarni sagði að stjórnarflokkarnir hefðu nýtt tímann illa og sett ýmis ný met á Alþingi. „Sá sem á Íslandsmet í málþófi situr hér, hæstvirtur forsætisráðherra,“ sagði Bjarni en stjórnarþingmenn voru ekki sáttir við ummæli Bjarna um málþóf og kölluðu frammí „700 ræður. 700 ræður.“  

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra gagnrýndi Bjarna harðlega. Hvort það hafi farið fram hjá honum að nær öll mál á verkáætlun ríkisstjórnarinnar væru í höfn.  Sakaði hún sjálfstæðismenn um að gefa lýðræðinu langt nef vegna andstöðu þeirra við lýðræðisumbætur í stjórnarskrárfrumvarpinu. Sagði hún Sjálfstæðisflokkinn alltaf vinna með sérhagsmunum og gegn almannahagsmunum.

Fleiri þingmenn tóku til máls en Þórunn Sveinbjarnardóttir Samfylkingu sagðist líta svo á að Bjarni Benediktsson hefði rofið samkomulag flokkanna um þinglokin með framgöngu sinni þegar til afgreiðslu væri þingsályktun um frestun á fundum alþingis.

Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist ekki líta svo á að samkomulagið hefði verið rofið. Legið hafi fyrir að formaður Sjálfstæðisflokksins myndi flytja stutta ræðu þegar lesið yrði upp bréf um frestun á fundum þingsins. það hafi hann gert. Jón Magnússon Sjálfstæðisflokki sagði að það væri rof á samkomulaginu þegar stjórnarþingmenn hefðu farið upp í umræðurnar.

Árni Páll Árnason Samfylkingu gagnrýndi Bjarna Benediktsson harðlega fyrir að efna til eldhúsdagsumræðna undir þessum lið á dagskrá þingsins um frestun þingfunda. „Við það verður ekki unað,“ sagði hann. Siv Friðleifsdóttir Framsóknarflokki tók í sama streng og sagði það mjög óvænt að þegar flutt væri tillaga um þingslit kæmi formaður Sjálfstæðisflokksins í ræðustól með hríðskotabyssu „og hóf skothríð í allar áttir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert