1,5 milljóna þak á framboðskostnað

Marta Guðjónsdóttir formaður Varðar.
Marta Guðjónsdóttir formaður Varðar.

Stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, leggur til að Sjálfstæðisflokkurinn efni til prófkjörs 23. janúar nk. í Reykjavík vegna borgarstjórnarkosninganna 2010. Í tillögunni er því beint til frambjóðenda að verja ekki meira en 1,5 milljón króna til prófkjörsbaráttunnar.

Marta Guðjónsdóttir, formaður stjórnar Varðar, segir að tillagan geri ráð fyrir að fyrirkomulag prófkjörsins verði með nokkuð breyttu sniði. Í fyrsta lagi sé gert ráð fyrir að kosið verði á einum degi en ekki tveimur. Í öðru lagi sé gert ráð fyrir að Valhöll verði sameiginlegur vinnuvettvangur frambjóðenda. Þeir komi m.a. til með að hafa aðgang að prófkjörsvef. Í þriðja lagi verði boðið upp á viðtalstíma með frambjóðendum. Í fjórða lagi sé áformað að halda nokkra framboðsfundi í borginni.

Marta segir að stærsta breyting sé hins vegar að þeim tilmælum sé beint til frambjóðenda að verja ekki meira en einni og hálfri milljón króna til baráttunnar. Það er talsvert lægri upphæð en miðað er við í lögum um fjármál stjórnmálaflokka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert