Gæti stefnt í byltingu

Einar Mar telur það lífsspursmál fyrir flokkana að fara í …
Einar Mar telur það lífsspursmál fyrir flokkana að fara í ítarlega naflaskoðun. mbl.is

Ríkisstjórnin stendur afar veikum fótum og er löskuð eftir það sem á undan er gengið, að mati Einars Mars Þórðarsonar stjórnmálafræðings. Einar Mar telur stóru flokkana verða að fara í naflaskoðun á stöðu sinni og framtíð, ellegar geti orðið bylting í íslenskum stjórnmálum.

Almenningur búinn að missa trúna

- Hvað segir hörð gagnrýni Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins á aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar um stöðu hennar?

„Ríkisstjórnin er afskaplega veik og afskaplega löskuð og er að mörgu leyti óvinsæl, enda ekki við öðru að búast í því erfiða árferði sem ríkisstjórnin er að takast á við.

Ég held að verkalýðshreyfingin, Samtök atvinnulífsins og almenningur í landinu - eins og við sjáum í öllum skoðanakönnunum í kringum sveitarstjórnarkosningar og traustskönnunum gagnvart stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum - séu búin að missa trúna á því að stjórnmálamenn, stjórnmálaflokkar og ríkisstjórnin geti hreinlega leyst úr þeim vanda sem við erum í.“

Hveitibrauðsdagar Jóhönnu taldir

- Þegar Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra naut hún mikilla vinsælda hjá almenningi. Hún var stjórnmálamaðurinn sem fólkið treysti. Telurðu að Jóhanna sé búin að missa sambandið við þjóðina sem hún hafði?

„Já. Við getum sagt það. Jóhanna var þessi flekklausi baráttustjórnmálamaður sem hjólar í kerfið sem við vorum öll ósátt við. Hún kemst til valda en kerfið hefur ekki breyst nógu mikið að mati kjósenda. Það sem gerðist eftir síðustu alþingiskosningar þegar kosningaþátttaka jókst frá síðustu kosningum - það hefur aldrei verið meiri þátttaka í prófkjörum - er að fólk hafði trú á að það væri hægt að breyta landinu. Þetta var nýja Ísland sem allir voru að tala um.

Svo kemst vinstri stjórnin til valda en svo breytast stjórnmálin ekki neitt. Það eru sömu vinnubrögðin áfram. Það er hanaslagur á Alþingi og svo virðist sem Jóhanna og Steingrímur stjórni öllu alveg eins og Geir og Ingibjörg gerðu.

Þannig að vinnubrögðin í íslenskum stjórnmálum hafa ekkert breyst og það held ég að sé megin ástæða þess að við sjáum að Besti flokkurinn mælist með 45% fylgi í Reykjavík.“  

Kosningaþátttakan gæti orðið dræm 

- Heldurðu að Besti flokkurinn fái þessa útkomu á laugardaginn?

„Ég held að Besti flokkurinn fái góða útkomu á laugardaginn en ekki meirihluta. Ég á ekki eftir að sjá það. Það sem ég og aðrir stjórnmálafræðingar hafa haft áhyggjur af er að kosningaþátttakan verði mjög lítil.

Fólk hafði mikla trú á alþingiskosningunum 2009 og hélt að það væri að breyta einhverju, að þetta nýja Ísland myndi koma fram. Svo einhvern veginn hefur áhugi og trú á stjórnmálum, stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum algjörlega dottið niður.

Þannig að ég er nokkuð viss um að Besti flokkurinn fær fína kosningu en ég er ekki sannfærður um að hann fái hreinan meirihluta og sérstaklega af því að margir sem segja í könnunum að þeir komi til með að kjósa hann komi jafnvel til með að sitja heima,“ segir Einar Mar og bætir því aðspurður við að erfitt sé að meta hvort ungt fólk muni koma á kjörstað á laugardag.

„Ég held að fólk vilji senda gömlu flokkunum fingurinn.“

Verða að fara í naflaskoðun 

- Hvað tekur við?

„Það er erfitt að segja. Fjórflokkurinn hefur auðvitað verið ansi lífseigur og ég er ekkert að spá honum dauða. Það er hins vegar spurning ef Besti flokkurinn og óánægjuframboð um allt land ná verulegum árangri þá held ég að flokkarnir loksins átti sig á því, gömlu flokkarnir, að þeir þurfi að fara í algjöra naflaskoðun og láta ekki hluti út úr sér eins og að rannsóknarskýrslan sé að þvælast fyrir sér tímabundið.“

Gamanið og alvaran

- Hversu líklegt telurðu að það komi fram, ef svo má að orði komast, nýtt alvöruframboð, alvöruflokkur?

„Það er vissulega spurning og auðvitað hafa stjórnmálaflokkarnir gömlu komið sér afskaplega vel fyrir. Þeir njóta gríðarlegs stuðnings frá ríkinu og sveitarfélögum og ný framboð eiga erfitt uppdráttar, sérstaklega peningalega. Og svo auðvitað komst Borgarahreyfingin á þing eftir síðustu kosningar en skaut sjálfa sig í fótinn mánuði eftir kosningar.

Það er spurning hvað gerist. Ef stjórnmálaflokkarnir gömlu taka sig ekki verulega í gegn og fara í naflaskoðun og hætta þeirri hugsun að það sé eitthvað tímabundið að þvælast fyrir þeim, að þá gæti alveg orðið einhvers konar bylting í íslenskum stjórnmálum.“ 

Bylting?

- Bylting er stórt orð. Hvað myndi felast í henni?

„Það er að segja að þá mundu nýir flokkar brjótast fram. Fjórflokkurinn hefur verið ansi lífseigur hingað til en það er alveg ljóst að fólk er orðið afskaplega þreytt á því sem í boði er og þá er spurningin hvort ný framboð myndu jafnvel ná verulega góðum árangri eins og stefnir í að Besti flokkurinn muni gera.“

Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur.
Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert