Vinna að gerð málefnasamnings

Unnið er að myndum nýs meirihluta á Akranesi. Myndin er …
Unnið er að myndum nýs meirihluta á Akranesi. Myndin er frá Langasandi á Skaganum. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks og óháðra og Vinstrihreyfingarinnar - Græns framboðs í bæjarstjórn Akraness ákváðu í dag að hefja gerð málefnasamnings vegna myndunar meirihluta. Þessir flokkar voru í minnihluta á nýliðnu kjörtímabili en hafa nú sjö fulltrúa af níu í bæjarstjórn.

Fjórir fulltrúar Sjálfstæðisflokks og fulltrúi Frjálslynda flokksins mynduðu meirihluta í bæjarstjórn Akraness eftir síðustu kosningar. Á kjörtímabilinu gekk fulltrúi Frjálslynda flokksins í Sjálfstæðisflokkinn. Þessi meirihluti féll nú þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk aðeins tvo fulltrúa.

Samfylkingin fékk fjóra, tveimur meira en síðast, Framsóknarflokkurinn og óháðir fengu tvo og bættu þar með einum fulltrúa við og VG fékk einn.

Sveinn Kristinsson, oddviti Samfylkingarinnar, segir að bæjarfulltrúar minnihlutaflokkanna hafi handsalað samkomulagi í dag um að vinna að gerð málefnasamnings. Samfylkingin hefði getað myndað meirihluta með öðrum hvorum hinna flokkanna. Sveinn segir það skoðun sína að best sé að sem flestir komi að myndun nýs meirihluta.

Sveinn á von á því að það gangi fljótt og vel fyrir sig að mynda meirihlutann. 

Meirihlutinn mun auglýsa starf bæjarstjóra laust til umsóknar. „Hann verður ráðinn á faglegum forsendum sem framkvæmdastjóri alls bæjarfélagsins en ekki sem sérstakur vinnumaður fyrir meirihlutann,“ segir Sveinn.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert