Vonbrigði í Hafnarfirði

Lúðvík Geirsson.
Lúðvík Geirsson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Lúðvík Geirsson segir úrslit sveitastjórnarkosninga vonbrigði fyrir Samfylkinguna. Flokkurinn tapaði tveimur mönnum til Sjálfstæðisflokksins, en báðir flokkar fengu fimm fulltrúa í bæjarstjórn. Vinstri-grænir eru í oddastöðu með einn mann.

Lúðvík er sjötti maður á lista Samfylkingarinnar og náði því ekki kjöri í bæjarstjórn. „Ég vissi að þetta yrði tæpt og það yrði barátta um þetta sæti," segir hann. Lúðvík segir magn auðra atkvæða sýna óánægju bæjarbúa með fjórflokkinn. Hann á hins vegar ekki skýringar á mikilli fylgisaukningu Sjálfstæðisflokksins: „Óánægjan í bæjarfélaginu stafar fyrst og fremst af afleiðingum hrunsins. Hér í Hafnarfirði og víðar er Sjálfstæðisflokkurinn að fá kosningu umfram það sem menn áttu von á. Ég get ekki skilið það," segir Lúðvík.

Lúðvík segir líklegast að Samfylkingin í Hafnarfirði muni ræða við Vinstri-græna um meirihlutasamstarf. „Ég bendi á það að meginniðurstaðan í Hafnarfirði er sú að jafnaðar- og félagshyggjuflokkarnir fá samanlagt um 60% fylgi. Það eru auðvitað skilaboð frá íbúum. Meirihluti verður aldrei myndaður öðruvísi en utan um málefni," segir Lúðvík. Þannig eigi Sjálfstæðisflokkurinn litla málefnalega samleið með Samfylkingunni eða Vinstri-grænum, að sögn Lúðvíks. Öðru máli gegni um Samfylkingu og Vinstri-græna.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert