Sigrún Björk segir af sér

Sigrún Björk Jakobsdóttir óskar Oddi Helga Halldórssyni bæjarfulltrúa L-listans til …
Sigrún Björk Jakobsdóttir óskar Oddi Helga Halldórssyni bæjarfulltrúa L-listans til hamingju eftir að fyrstu tölur voru birtar á laugardagskvöld. mbl.is/Skapti

Sigrún Björk Jakobsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, ætlar að víkja sem oddviti flokksins og mun ekki taka sæti í bæjarstjórn á nýju kjörtímabili. Ólafur Jónsson tekur sæti í bæjarstjórninni í stað Sigrúnar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu, sem Sigrún Björk hefur sent frá sér. Segist hún gera þetta í ljósi hins mikla fylgistaps, sem flokkurinn varð fyrir í sveitarfélaginu en Sjálfstæðisflokkurinn fékk aðeins einn bæjarfulltrúa kjörinn en hafði fjóra.

Yfirlýsing Sigrúnar Bjarkar er eftirfarandi:

Í ljósi mikils fylgistaps Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum hef ég ákveðið að víkja sem oddviti flokksins hér í bæ. Ég mun því ekki taka sæti í bæjarstjórn á nýju kjörtímabili.

Niðurstaða kjósenda er skýr. L-listinn vann frábæran og sögulegan kosningasigur. Ég óska þeim innilega til hamingju með sigurinn og bæjarfulltrúum listans velfarnaðar í sínum störfum.

Ég kveð bæjarstjórn Akureyrar sátt og er stolt af því sem hefur áunnist á þeim átta árum sem ég hef setið í bæjarstjórn. Nú finnst mér rétt að nýr aðili taki við keflinu. Ólafur Jónsson mun taka sæti mitt í bæjarstjórn. Þar er góður maður á ferð, sem og aðrir frambjóðendur á lista flokksins.

Ég vil þakka samherjum mínum í Sjálfstæðisflokknum gott samstarf og stuðning á liðnum árum. Eins vil ég þakka starfsmönnum Akureyrarbæjar og fyrirtækja bæjarins ánægjulegt samstarf.

Ég hvet nýja bæjarstjórn til góðra verka, íbúum Akureyrarbæjar til heilla.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert