Gísli Marteinn mest strikaður út

Gísli Marteinn Baldursson.
Gísli Marteinn Baldursson.

Oftast var strikað yfir nafn Gísla Marteins Baldurssonar í borgarstjórnarkosningunum á laugardaginn. Hjá Samfylkingunni var Dagur B. Eggertsson oddviti flokksins strikaður oftast út og meðal kjósenda Vinstri grænna var oddvitinn einnig umdeildastur, því Sóley Tómasdóttir fékk flestar útstrikanir.

Kjósendur Besta flokksins virtust ósáttastir við Einar Örn Benediktsson, sem fékk flestar útstrikanir á listanum.

Þessar útstrikanir hafa hinsvegar engin áhrif á það hverjir verða borgarfulltrúar eða í hvaða röð. Að sögn Kristínar Edwald, formanns kjörstjórnar í Reykjavík, eru aðeins þeir sem hlutu kjör, þ.e. aðal- og varafulltrúar skoðaðir en ekki þeir sem skipuðu sæti neðar á lista.

Enn er verið að fara yfir útstrikaða seðla og telja atkvæðamagn á bak við hvern og einn fulltrúa. Það er að sögn Kristínar mikil handavinna og mun ekki liggja ljóst fyrir fyrr en í vikulokin.

Langmest var um útstrikanir og breytingar á atkvæðaseðlum Sjálfstæðisflokksins, því 4.475 kjósendur flokksins breyttu atkvæðaseðlunum sem er liðlega 22% kjósenda flokksins í Reykjavík. 971 atkvæðaseðli Samfylkingar var breytt, 904 hjá Besta flokknum, 475 hjá VG, 15 hjá H-lista, 9 hjá Reykjavíkurframboðinu og 5 hjá Frjálslynda flokknum. Í heildina komu því fram 6.915 breyttir seðlar í borginni sem svarar til um 11% greiddra atkvæða.

Dagur B. Eggertsson,
Dagur B. Eggertsson, Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Sóley Tómasdóttir
Sóley Tómasdóttir
Einar Örn Benediktsson í 2. sæti á lista Besta flokksins
Einar Örn Benediktsson í 2. sæti á lista Besta flokksins Gunnar Svanberg Skulason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert