Óska eftir viðræðum við Garðabæ

Frá Álftanesi.
Frá Álftanesi. mbl.is/Golli

Bæjarstjórn Álftaness samþykkti á fundi sínum í dag að fara þess á leit við bæjarstjórn Garðabæjar að hafnar verði formlegar sameiningarviðræður um mögulega sameiningu sveitarfélaganna.

Bæjarstjórn samþykkti jafnframt á fundi sínum að skipa þrjá fulltrúa í sameiginlega samstarfsnefnd sem á að annast athugun á kostum sameiningar sveitarfélaganna og stýra kosningu um sameiningu sveitarfélaganna.

Aðdragandi málsins er sá að með samningi bæjarstjórnar Álftaness við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, dags. 17. desember 2009, samþykkti bæjarstjórn Álftaness að hefja þegar viðræður við önnur sveitarfélög um mögulega sameiningu.

Hinn 6. mars 2010 var gerð skoðanakönnun meðal íbúa á Álftanesi um áhuga á sameiningu við annað sveitarfélag. Niðurstöður úr þeirri skoðanakönnun voru skýrar en 44% íbúa settu sameiningu við Garðabæ fram sem fyrsta kost og 34% íbúa settu sameiningu við Reykjavík sem sinn fyrsta kost. Svarhlutfall í skoðanakönnuninni var um 64% íbúa.

Nú þegar bæjarstjórnir Álftaness og Garðabæjar hafa öðlast nýtt umboð kjósenda þykir rétt og eðlilegt að halda áfram með undirbúning að viðræðum um mögulega sameiningu sveitarfélaganna, samkvæmt upplýsingum frá bæjarstjórn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert