Kosningarnar eru alvörumál

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Við eigum bæði rætur að rekja til Vestfjarða og bæði Grímur og Hannibal myndu skemmta sér vel yfir þessari stöðu,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í viðtali í morgun er hann var spurður um afstöðu sína til annarra forsetaframbjóðanda og sér í lagi Þóru Arnórsdóttur.

Ólafur var gestur Sigurjóns M. Egilssonar í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni og þarna átti hann við Grím Kristgeirsson föður sinn og Hannibal Valdimarsson, afa Þóru.

Hann gerði framboð Þóru Arnórsdóttur að umtalsefni og sagði hana hafa kynnt sig sem þögulan og þægan forseta.

„Manneskja, sama hvort hún er ung eða gömul, sem segir það skyldu forsetans að styðja utanríkisstefnu ríkisins, hún sýnir afstöðu sem er fagnaðarefni fyrir forsætisráðherra. Ég tel að þetta sé ekki sú tegund forseta sem þjóðin þarf á að halda núna.“

Hann sagði nokkurn „2007-brag“ vera á því framboði sem hefur verið mest áberandi. „Auðvitað skiptir máli að hafa fjölskyldu á Bessastöðum. Auðvitað  skiptir máli hvernig fólk lítur út og hvað það er gamalt. En forsetaembættið er síðasta stoppið ef fólkið vill fá völdin í sínar hendur. Þetta er grafalvarlegt val sem þjóðin stendur frammi fyrir og getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslenska þjóð. Þetta er allt of mikið alvörumál til að við getum misst okkur í sýndarmennsku.“

Hann sagðist bera virðingu fyrir forsetaframbjóðandanum Herdísi Þorgeirsdóttur sem hefur skrifað greinar um innihald og hlutverk forsetaembættisins. „Þetta er það sem baráttan á að snúast um,“ sagði Ólafur Ragnar.

Ólafur verður 69 ára á morgun. Sigurjón spurði hann að  því hvort hann teldi sig vera of gamlan og svaraði forsetinn því til að hann væri yngri en Ronald Reagan, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, sem var kjörinn sjötugur að aldri.

„Þegar tugþúsundir Íslendinga skora á mig, þá tel ég að einstaklingur sem þjóðin hefur sýnt þetta traust í 16 ár hafi skuldbindingar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert