Sýður upp úr hjá VG vegna ESB

Jón Bjarnason afhenti Steingrími J. Sigfússyni lyklavöldin í sjávarútvegs- og …
Jón Bjarnason afhenti Steingrími J. Sigfússyni lyklavöldin í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Jón hefur nú sagt sig úr VG, fyrst og fremst vegna óánægju með stefnu flokksins í Evrópumálum. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þegar þessi lest er komin af stað veit maður ekki hvert hún fer með okkur. Mér finnst því rétt að taka teinana í sundur strax.“ Þetta segir Þorsteinn Bergsson um aðildarumsóknina að ESB, en Þorsteinn hefur sagt sig úr VG og ætlar að taka þátt í nýju framboði, Regnboganum.

Sú ákvörðun hóps áhrifamanna innan Vinstri grænna að ganga úr flokknum og stofna til nýs framboðs undir yfirskriftinni Regnboginn breytir landslaginu á vinstri jaðrinum. Rótin að því er ályktun landsfundar VG á nýliðnum landsfundi að ljúka eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það segir sína sögu um hversu umdeilt málið var, að 83 voru því fylgjandi, en 72 vildu samþykkja fyrri ályktun um að leggja í dóm þjóðarinnar hvort framhald yrði á viðræðunum.

Eftir landsfundinn komu „villikettirnir“ saman, hópur sem dregur nafn sitt af yfirlýsingu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra um að of langan tíma tæki að ná saman meirihluta á Alþingi – það væri eins og að smala köttum. Í hópnum voru Atli Gíslason, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Bjarni Harðarson og Jón Bjarnason, sem öll hafa setið á þingi, Guðmundur Brynjólfsson rithöfundur af Vatnsleysuströnd og Baldvin H. Sigurðsson í Flugkaffinu á Akureyri sem var bæjarfulltrúi VG á Akureyri.

„Þú sérð í hendi þér að þetta er framboð vinnandi manna, því þarna eru tveir kaffibarþjónar,“ segir Bjarni sem rekur bókakaffihús á Selfossi. „Þú kemst ekki nær hinni vinnandi stétt, því hafnarverkamenn eru orðnir mjög fágætir.“

Framsóknarkommar

Fullveldismálin eru aflvaki í framboðinu, að sögn Bjarna. „En einnig spilar inn í skoðanakönnun í Sunnlenska fréttablaðinu á Selfossi, sem ég rak í gamla daga en á ekki lengur, en þar kom fram sterk áskorun á mig að fara í framboð. Sambærilegar áskoranir hefur félagi minn, Jón Bjarnason, fengið í sínu kjördæmi.“

En ekki var dustað rykið af hugmyndum um framboð fyrr en stefnu flokksins var snúið við á landsfundi Vinstri grænna. „Þó að reynt sé að láta líta út fyrir að ekkert hafi hafi gerst, þá var hægfara breyting á stefnu flokksins endanlega staðfest þarna. Það getur enginn flokkur haft það á stefnuskrá sinni að klára aðildarferli að ESB nema sá sem hefur ESB á sinni stefnuskrá.“

Bjarni segir að framboðsvinnan hafi gengið hratt og sé enn að skýrast. „Framboð í öllum kjördæmum er ekki í hendi fyrr en við getum kynnt oddvita til leiks og við höfum væntingar um að það gangi eftir. En þegar er ljóst að við bjóðum fram í landsbyggðarkjördæmunum þremur. Það er liður í okkar stefnu. Það eru ekki bara þeir sem minna mega sín í samfélaginu sem hafa farið illa út úr samdrættinum, heldur einnig byggðirnar sem minna mega sín. Þeim hefur blætt mikið og gengið hefur verið freklega í að skera af þeim opinbera þjónustu.“

Bjarni segir ljóst að hluti kjósenda sem vilji stöðva aðlögunarferlið að ESB eigi sér ekki raunhæfan farveg í þeirri flóru sem fyrir liggur. „Það er misjafnlega heil brú yfir til gömlu ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar,“ segir hann. „Ég hef sagt fyrir mig, þó að það sé ekki heiti sem allir tileinka sér, að við vorum stundum kallaðir framsóknarkommar, en eigum ekkert alltof greiða leið inn í Framsókn eins hægri sinnuð og hún er orðin núna.“

En fleiri hafa gengið til liðs við hreyfinguna, að sögn Bjarna, bæði róttækt vinstri fólk og fólk sem er ekkert endilega til vinstri en aðhyllist sömu gildi. „Margt er óunnið í málefnum þeirra sem verst fóru út úr hruninu. Mér finnst gleymast í þeirri umræðu að sú lífskjaraskerðing sem hérna varð fól í sér alvarlegan forsendubrest fyrir þá lægst launuðu og stóra hópa sem eru með annarskonar tekjur, örorku eða ellilífeyri, og hafa ekki lengur möguleika á að framfleyta sér. Það er alvarlegasta pólitíska úrlausnarefnið sem við þurfum að glíma við.“

Stórfurðuleg framkoma

Vænta má frekari tíðinda af framboðsmálum Regnbogans á þriðjudag. Ljóst er að Bjarni og Guðmundur leiða framboðið á Suðurlandi, Jón í Norðvesturkjördæmi og Baldvin og Þorsteinn í Norðausturkjördæmi. Áður dró Þorsteinn sig út af lista Vinstri grænna. „Baldvin hafði samband við mig og sagði mér frá þessum þreifingum,“ segir hann. „Ég hafði lengi verið ansi óánægður, einkum með það hvernig vinstri grænir afgreiddu Evrópumálin á síðasta fundi. Þegar Baldvin sagði mér hverjir stæðu á bak við framboðið, sá ég að þetta voru þeir menn sem ég hafði verið samstíga á meðan þeir voru í VG. Mér fannst þetta því rökrétt miðað við mína pólitísku afstöðu.“

Hann segir ágreininginn snúast um fleira en Evrópumálin. „Ég var ósáttur við hvernig tekið var á málefnum Sparisjóðs Keflavíkur og Sjóvár, umhverfismálin á Bakka, olíuvinnsluna í Norður-Íshafi og að því hafi verið gefið undir fótinn að leggja sæstreng. Það er alls ekki í samræmi við stefnu flokksins og stórfurðuleg framkoma. Og að sækja í Samfylkinguna, sem ég treysti engan veginn. Ég held það geti verið heillavænlegra fyrir að starfa með Framsókn og jafnvel sjálfstæðismönnum, ekki síst í ljósi Evrópustefnunnar.“

Stefnubreyting Vinstri grænna í Evrópumálum á síðasta landsfundi flokksins var kornið sem fyllti mælinn. Nú eru komin fram tvö klofningsframboð, Regnboginn og Alþýðufylkingin.

Þorsteinn Bergsson
Þorsteinn Bergsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert