Beiti blekkingum til að afla stuðnings

Samstaða flokkur lýðræðis og velferðar sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem ítrekað er, að gefnu tilefni, að flokkurinn muni hvorki bjóða fram í komandi kosningum né lýsa yfir stuðningi við önnur framboð.

„Stjórn Samstöðu harmar hvernig frambjóðendur annarra flokka beita blekkingum til að ná til sín stuðningsfólki, stefnu og lausnum flokka eins og Samstöðu,“ segir í yfirlýsingunni sem undirrituð er af þeim Lilju Mósesdóttur, Rakel Sigurgeirsdóttur, Jóni Kr. Arnarsyni, Jónasi P. Hreinssyni, Eiríki Inga Garðarssyni, Hallgeiri Jónssyni og Helgu Garðarsdóttur.

Nokkrir fyrrverandi meðlima Samstöðu sem sögðu sig úr stjórninni taka nú þátt í stofnun Flokks heimilanna. Einn þeirra, Inga Karen Ingólfsdóttir, sagði í þættinum Vikulokin í gær að Samstaða væri gengin til liðs við Flokk heimilanna. Rakel Sigurgeirsdóttir, kynningar- og tengslafulltrúi Samstöðu, segir að þetta sé í besta falli villandi málflutningur.

Þá gerði Lilja Mósesdóttir það að umtalsefni í þætti Sigurjóns M. Egilssonar, Sprengisandi, í morgun stefnumál nýju framboðanna sem virðist sum hver sett fram án mikillar þekkingar.

„Þau eru kannski með einhverja stefnu, eins og snjóhengjuna, án þess að hafa skilning á vandanum [...] Þegar ég var skoða stefnuskrá flokkanna, þeir virðast ekki átta sig á öllu því sem búið er að gera á Alþingi síðast liðin fjögur ár,“ sagði Lilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert