Halldór heldur fyrsta sætinu

Halldór Halldórsson heldur fyrsta sætinu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík til borgarstjórnarkosninga næsta vor þegar 2.442 atkvæði hafa verið talin. Júlíus Vífill Ingvarsson er í öðru sæti og Kjartan Magnússon í því þriðja.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir er í fjórða sæti og Áslaug María Friðriksdóttir í því fimmta. Búist er við því að endanleg úrslit liggi fyrir um miðnættið. 

Eina breytingin á röð tíu efstu frambjóðenda sem orðið hefur frá því fyrstu tölur voru kynntar kl. 19 er að Björn Gíslason er nú í áttunda sæti og Börkur Gunnarsson í því níunda.

Tuttugu frambjóðendur gáfu kost á sér í prófkjörinu. Fjórir gáfu kost á sér í oddvitasætið þau Halldór Halldórsson, Hildur Sverrisdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir.

Halldór segist þakklátur og að sín fyrstu viðbrögð séu virðing fyrir kjósendum. „Ég er auðvitað ánægður að hafa náð þessum árangri en þetta eru fyrstu tölur, eitthvað getur breyst en þetta gefur góða vísbendingu,“ sagði Halldór eftir að fyrstu tölur voru kynntar í Valhöll í kvöld.

Atkvæði sem talin hafa verið skiptast nú þannig:

1. Halldór Halldórsson: 911 atkvæði í fyrsta sæti

2. Júlíus Vífill Ingvarsson:1.064 atkvæði í 1.-2. sæti

3. Kjartan Magnússon: 1.304 atkvæði í 1.-3. sæti

4. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir: 951 atkvæði í 1.-4. sæti

5. Áslaug María Friðriksdóttir: 1.156 atkvæði í 1.-5. sæti

6. Marta Guðjónsdóttir: 1.096 atkvæði í 1.-6. sæti

7. Hildur Sverrisdóttir: 1.064 atkvæði í 1.-7. sæti 

8. Björn Gíslason: 714 atkvæði

9. Börkur Gunnarsson: 674 atkvæði

10. Lára Óskarsdóttir: 637 atkvæði


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert