Gefur kost á sér í 3. sæti

Kristín Soffía Jónsdóttir.
Kristín Soffía Jónsdóttir.

Kristín Soffía Jónsdóttir gefur kost á sér í 3. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík í vor.

Kristín segir í tilkynningu að hún hafi sem formaður og nefndarmaður í lykilnefndum unnið af fullum krafti að því að gera góða borg betri. Hún hafi einnig átt frumkvæði að því að gera Laugaveginn að göngugötu, leiða gerð umhverfis- og auðlindastefnu fyrir borgina og hafi tekið virkan þátt í gerð nýs Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030.

„Mín megináhersla er að gera Reykjavíkurborg að heilnæmari, þægilegri, vinalegri og ekki síst öruggari borg.  Til að gera borgina betri fyrir alla þarf að huga að samspili skipulags, samgangna og lýðheilsu. Samspil þessara þátta er oft vanmetið en með því að virkja þessar tengingar má auka lífsgæði og lífsgleði borgarbúa,“ segir í tilkynningu frá Kristínu. 

„Stóru tækifærin í Reykjavík eru fólgin í bættum samgöngum, betri Strætó, fleiri hjóla- og göngustígum og bættri umferðarmenningu. Ég er með BSc-próf í umhverfis- og byggingaverkfræði og hef samhliða vinnu stundað framhaldsnám í samgönguverkfræði.“

„Ég hef notið þess í botn að vinna fyrir Reykvíkinga seinustu fjögur árin og er viss um að þessi frábæra borg geti orðið enn betri. Ég get lagt ýmislegt af mörkum og sækist ég eftir stuðningi til að halda áfram,“ segir í tilkynningu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert