Vilja kjósa borgarstjóra sérstaklega

Frá blaðamannafundi Pírata í Reykjavík í dag. Svanur Kristjánsson, prófessor …
Frá blaðamannafundi Pírata í Reykjavík í dag. Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, var fundarstjóri. mbl.is/Þórður Arnar

Píratar í Reykjavík setja lýðræðismál á oddinn fyrir komandi borgarstjórnarkosningar en þeir leggja mikla áherslu á að borgarlýðræðið verði eflt og valdinu jafnframt dreift. Þeir vilja róttækar kerfisbreytingar sem færa valdið til íbúanna og að gagnsæið í stjórnsýslunni verði algjört.

Á blaðamannafundi í kosningamiðstöð Pírata við Snorrabraut 27 í dag, þar sem stefnumál flokksins voru kynnt, sagði Halldór Auðar Svansson, oddviti listans, að eitt af áherslumálum Pírata væri að borgarstjórinn yrði kosinn beinni kosningu af borgarbúum.

Hann bætti því jafnframt við að Píratar myndu setja áherslur sínar, hverja fyrir sig, inn á samráðsvefinn Betri Reykjavík til að kanna hljómgrunn þeirra. „Við skorum á önnur framboð í borginni að gera hið sama við stefnumál sín svo við getum fundið út í sameiningu hvaða mál hafa mestan hljómgrunn meðal borgarbúa,“ segir Halldór Auðar.

Allt upp á borðið

Á fundinum fjallaði hann nánar um áherslur Pírata í stjórnsýslu- og lýðræðismálum. Hann sagði mikilvægt að upplýsingar um öll útgjöld borgarinnar, dótturfyrirtækja hennar, byggðarsamlaga og ráðstöfun styrkja sem borgin veitir væru gefnar upp opinberlega.

Þá legðu Píratar áherslu á að boðið yrði upp á aukið íbúasamráð og kosningar um mál sem væru í meðferð innan stjórnsýslunnar. Áhersla skyldi jafnframt vera lögð á að nýta frjálsan og opinn hugbúnað á öllum stigum stjórnsýslu og þjónustu borgarinnar.

Í velferðarmálum vilja Píratar tryggja að Reykjavíkurborg uppfylli grunnþjónustu- og framfærsluskyldur sínar gagnvart íbúum borgarinnar. „Þeir sem hvergi eigi höfði að halla fái þak yfir höfuðið og slík þjónusta verði ekki háð nokkrum kvöðum af þeirra hálfu,“ sagði Halldór Auðar og bætti því við að brýnt væri að styrkja embætti umboðsmanns borgarbúa og útvíkka hlutverk hans.

Vilja ná „víðtækri sátt“ í flugvallarmálinu

Þórgnýr Thoroddsen, sem skipar annað sætið á lista Pírata í Reykjavík, sagði á fundinum að Píratar vildu gera almenningssamgöngur að raunbetri valkosti með því að stórefla þær í samvinnu við íbúa borgarinnar og nærliggjandi sveitarfélög.

Hann fjallaði um stefnu flokksins í samgöngu- og skipulagsmálum. Afstaða flokksins til flugvallarins í Vatnsmýri kom ekki mjög skýrt fram en Þórgnýr sagði að nauðsynlegt væri að ákveða framtíðarstaðsetningu hans „í eins víðtækri sátt höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar og kostur er á,“ eins og hann orðaði það.

Annars leggja Píratar áherslu á að byggð verði þétt, svo fremi sem uppbygging umferðarmannvirkja haldi í við þróunina og þéttingin verði ekki á kostnað útivistarsvæða. 

Eins vilja Píratar endurskoða aðferðafræðina og núverandi form aðalaskipulagsins með það að markmiði að auka lýðræði, þátttöku íbúa og gagnsæi í allra ákvarðanatöku.

Ekki allir steyptir í mót skóla án aðgreiningar

Í skólamálum hvetja Píratar til aukins sjálfstæðis leik- og grunnskóla varðandi kennsluaðferðir, sem og kennsluhætti, innan ramma aðalnámskrárinnar. Að sögn Arnaldar Sigurðarsonar, sem skipar fjórða sætið á lista flokksins í Reykjavík, felst í þessu stuðningur við mismunandi áherslur og rekstrarform skóla, aukið áhrifavald kennara til stefnumótunar í skólamálum, sem og aukið frelsi nemenda og foreldra til þess að hafa áhrif á skólaumhverfi og nám. 

Arnaldur benti á að Píratar vildu ekki að allir yrðu steyptir í mót skóla án aðgreiningar, heldur skyldi þess í stað bjóða upp á sérskólaúrræði fyrir þá nemendur og fjölskyldur þeirra sem þess óska. 

Gera börnum kleift að umgangast hesta

Kristín Elfa Guðnadóttir, sem skipar fimmta sætið á lista flokksins, gerði grein fyrir stefnu Pírata í íþrótta- og tómstundamálum. Hún sagði meðal annars að Píratar vildu vernda Laugardal og Elliðaárdal sem útivistar- og íþróttasvæði, efla aðgang barna og unglinga að samskiptum við dýr innan borgarmarka og kanna leiðir til að gera börnum kleift að umgangast hesta og leggja stund á útreiðar.

Þá vildu Píratar jafnframt stuðla að fjölbreyttari möguleikum til útivistar og leita til borgarbúa um hugmyndir í því samhengi. 

Nefndi Kristín Elfa sérstaklega að skoðaður yrði sá möguleiki að frístundakortið yrði gefið út á öll börn á leik- og grunnskólaaldri og yrði þá hægt að nota það til að greiða niður allar frístundir, svo sem tónlistarkennslu, íþróttaiðkun og listnámi.

Kristín Elfa Guðnadóttir, sem skipar fimmta sætið á lista Pírata, …
Kristín Elfa Guðnadóttir, sem skipar fimmta sætið á lista Pírata, kynnir stefnumál flokksins í íþrótta- og tómstundamálum. mbl.is/Þórður Arnar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert