Sóley vill ekki starfa með Framsókn

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna.
Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna.

„Við getum unað ágætlega við þessar niðurstöður,“ segir Sóley Tómasdóttir, oddviti Vinstri grænna, um niðurstöður borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík. Hún verður eini fulltrúi flokksins í borgarstjórn á kjörtímabilinu.

Sam­fylk­ing­in er stærsti flokk­ur­inn í borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur með fimm borg­ar­full­trúa og 31,9% at­kvæða. Björt framtíð er með tvo full­trúa og 15,6% at­kvæða, Fram­sókn með tvo full­trúa og 10,7% at­kvæða, Vinstri græn með 8,3% atkvæða og Pírat­ar með einn full­trúa og 5,9% at­kvæða. Hvorki Dög­un né Alþýðufylk­ing­in fengu kjör­inn full­trúa í borg­ar­stjórn.

Sóley segir að flokkurinn hafi verið í erfiðri stöðu á kjörtímabilinu sem er að líða með klofinn borgarstjórnarflokk í minnihluta með vinsælum meirihluta. Ekki sé auðvelt að vinna sig upp úr slíkri stöðu. „Við vorum hrikalega dugleg með frábært fólk í kosningabaráttunni og munum vinna þétt saman á þessu kjörtímabili,“ sagði Sóley í samtali við mbl.is.

Sóley segist ekki vilja taka afstöðu strax til þess hvort hún myndi vilja starfa með Samfylkingunni og Bjartri framtíð í meirihluta í borgarstjórn, ef til þess kæmi.

En gætir þú hugsað þér að starfa með Framsókn? „Nei, það kemur ekki til greina,“ segir Sóley. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert