Sjálfstæðismenn og VG í meirihluta

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstrihreyfingin - grænt framboð í Mosfellsbæ hafa gengið frá samkomulagi um myndun meirihluta í bæjarstjórn. Samtals hafa þeir sex af níu bæjarfulltrúum þar ad sjálfstæðismenn fimm.

Haraldur Sverrisson, oddviti sjálfstæðismanna, verður áfram bæjarstjóri í Mosfellsbæ. Hafsteinn Pálsson frá Sjálfstæðisflokki og Bjarki Bjarnason frá VG skipta á milli sín embætti forseta bæjarstjórnar á kjörtímabilinu. Formaður bæjarráðs verður Bryndís Haraldsdóttir frá Sjálfstæðisflokki. Flokkarnir skipta ennfremur á milli sín formennsku og varaformennsku í nefndum sveitarfélagsins á kjörtímabilinu.

Helstu áherslur flokkanna tveggja á komandi kjörtímabili eru í samræmi við stefnuskrár þeirra í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum segir í fréttatilkynninguen þær ganga meðal annars út á:

Traustan og ábyrgan rekstur bæjarfélagsins og að skuldahlutfall haldi áfram að lækka og jafnframt að álögur á íbúa lækki

Lögð verði áhersla á uppbyggingu skólamannvirkja í samræmi við stækkandi bæjarfélag

Að auka fjölbreytileika og valfrelsi í skólastarfi

Að auka sveigjanleika í félagslega húsnæðiskerfinu og hvetja til byggingar almennra leiguíbúða í sveitarfélaginu

Að tryggja nægt framboð  byggingarlóða fyrir fjölbreyttar íbúðagerðir

Að tryggja nægt framboð atvinnulóða á sanngjörnu verði

Að umhverfismál verði ævinlega sett á oddinn í öllum framkvæmdum í sveitarfélaginu og aðgát verði sýnd í umgengni við náttúruna. 

Að upplýsingastreymi til íbúa verði aukið, meðal annars með því styrkja svonefnda íbúagátt og gera fundargögn aðgengileg á netinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert