Nýr sveitarstjóri í Norðurþingi

Dr. Kristján Þór Magnússon tekur við síðsumars sem sveitarstjóri Norðurþings.
Dr. Kristján Þór Magnússon tekur við síðsumars sem sveitarstjóri Norðurþings.

Kristján Þór Magnússon verður ráðinn sveitarstjóri Norðurþings, samkvæmt ákvörðun nýs meirihluta Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og óháðra í sveitarstjórn.

Kristján, sem er 35 ára, er doktor í íþrótta- og heilsufræðum. Hann mun taka við starfinu síðsumars, en nýr meirihluti hefur farið þess á leit við fráfarandi sveitarstjóra, Berg Elías Ágústsson, að hann gegni embættinu þangað til.

Þá hefur nýr meirihluti gert með sér málefnasamning þar sem er m.a. gert ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu á Bakka. Jafnframt verður unnið að því að fá fleiri fyrirtæki til að fjárfesta í uppbyggingu á svæðinu. 

„Stefnt er að því að iðnaðarsvæðið á Bakka verði vettvangur meðalstórra og minni iðnfyrirtækja. Fyrirtæki verði valin inn á svæðið m.t.t. ásættanlegra áhrifa á umhverfi, samfélag og aðra atvinnuvegi. Markmiðið er að orka í Þingeyjarsýslu sé nýtt í héraðinu,“ segir í málefnasamningnum.

Borinn og barnfæddur Húsvíkingur

Kristján Þór Magnússon er 35 ára, borinn og barnfæddur Húsvíkingur. Hann stundaði nám við Framhaldsskólann á Húsavík og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1999. Eftir fjögurra ára nám í Bandaríkjunum lauk hann grunnnámi (BA) í líffræði við Bates College í Maine árið 2003. Hann lauk meistaraprófi (MPH) í faraldsfræði frá Boston University School of Public Health árið 2006 og doktorsprófi (PhD) í íþrótta- og heilsufræðum frá Háskóla Íslands árið 2011.

Kristján Þór starfaði sem aðjúnkt meðfram doktorsnámi við HÍ frá árinu 2009, en var ráðinn lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands árið 2011 og hefur sinnt bæði kennslu og rannsóknum á sviði lýðheilsu og heilsueflingar síðan þá. Undanfarin þrjú ár hefur Kristján Þór að auki sinnt hlutastarfi sem sérfræðingur og verkefnastjóri hjá embætti landlæknis. Kristján sinnti á yngri árum fjölbreyttum sumar- og hlutastörfum meðfram námi á Húsavík, m.a. fyrir Norðursiglingu og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga.

Kristján Þór er giftur Guðrúnu Dís Emilsdóttur, stjórnmála- og fjölmiðlafræðingi. Hún er dagskrárgerðarkona á RÚV og stjórnar morgunþættinum Virkir morgnar á Rás 2, ásamt því að vinna að innlendri dagskrárgerð í sjónvarpi. Þau hafa búið á höfuðborgarsvæðinu undanfarin sjö ár og eiga tvö börn, þau Aðalheiði Helgu (6 ára) og Magnús Hlíðar (1 árs).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert