Konur skipa tvo þriðju hluta bæjarstjórnar

Ný bæjarstjórn var kjörin á Akranesi í dag, 19. júní. Ingibjörg Pálmadóttir aldursforseti bæjarstjórnar setti 1192 fund bæjarstjórnar og stýrði kjöri forseta bæjarstjórnar. Sigríður Indriðadóttir var kjörin forseti bæjarstjórnar.

Ingibjörg Pálmadóttir var fyrsta konan sem var kjörin forseti bæjarstjórnar á Akranesi, en því embætti gegndi hún 1986 til 1988 og 1989 til 1991. Sigríður er þriðja konan til að gegna embætti forseta en það má geta þess að langafi Sigríðar, Ólafur B. Björnsson var fyrsti forseti bæjarstjórnar Akraness og var hann kjörinn árið 1942. Afi Sigríðar, Valdimar Indriðason var einnig forseti bæjarstjórnar Akraness, árin 1976 til 1984.

Á fundinum var Ólafur Adolfsson kjörinn formaður bæjarráðs, Einar Brandsson var kjörinn formaður framkvæmdaráðs og skipulags- og umhverfisnefndar, Sigríður Indriðadóttir var kjörin formaður fjölskylduráðs, Valdís Eyjólfsdóttir var kjörinn fulltrúi Akraness í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og Ólafur Adolfsson var kjörinn fulltrúi Akraneskaupstaðar í stjórn Faxaflóahafna. Ingþór Bergmann Þórhallsson var kjörinn formaður menningarmálanefndar og stjórnar Byggðasafnsins í Görðum, Tryggvi Bjarnason var kjörinn formaður barnaverndarnefndar og Kristjana Helga Ólafsdóttir var kjörin formaður stjórnar Höfða hjúkrunar-og dvalarheimilis. Upplýsingar um skipan ráða og nefnda má sjá hér

Á fundinum var samþykkt að ráða Regínu Ásvaldsdóttur sem bæjarstjóra kjörtímabilið 2014 til 2018.

Bæjarstjórn samþykkti einnig að fela bæjarstjóra í samráði við bæjarráð að vinna að endurskoðun á gildandi samþykkt um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar með það í huga að skoða kjörgengi í fjölskylduráð og framkvæmdaráð. Einnig að skoða gildandi skipan nefnda og ráða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert