Bjarni vill leiða lista VG

Bjarni Jónsson.
Bjarni Jónsson. Ljósmynd/Bjarni Jónsson

Bjarni Jónsson fiskifræðingur hefur ákveðið að gefa kost á sér í forvali Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi þingkosningar og stefnir hann á 1. sæti framboðslista flokksins. Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG, skipaði sætið í síðustu þingkosningum. Bjarni hefur setið sem fulltrúi VG í sveitarstjórn sveitarfélagsins Skagafjarðar frá árinu 2002 og er formaður Svæðisfélags VG í Skagafirði. Þá hefur hann gegnt ýmsum öðrum trúnaðarstörfum bæði á vettvangi VG og sveitarstjórnarmála.

Bjarni er sonur Jóns Bjarnasonar, fyrrverandi þingmanns Vinstri grænna og fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. 

„Ég tel mig hafa víðtæka reynslu og þekkingu á málefnum landsbyggðarinnar og vil gjarna beita kröftum mínum í þágu kjördæmisins. Mín áherslumál í sveitarstjórn sem og á vettvangi landshlutasamtaka hafa verið heilbrigðismál, umhverfi, samgöngubætur og atvinnusköpun á landsbyggðinni. Þau áherslumál þarf einnig að taka upp með beittari hætti á landsvísu. Þá brenn ég einnig fyrir grunngildum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um náttúruvernd, jöfnuð og byggðajafnrétti, sem eiga svo sannarlega erindi til Íslendinga hvar sem þeir búa,“ segir Bjarni í fréttatilkynningu.

Bjarni er fæddur árið 1966 og ólst upp í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi til 14 ára aldurs er fjölskyldan fluttist að Hólum í Hjaltadal. Þar bjó hann til ársins 2010 þegar hann fluttist til Sauðárkróks. Eiginkona Bjarna er Izati Zahra og á hann eina dóttur af fyrra sambandi, Kristínu Kolku. Bjarni lauk stúdentsprófi frá FNV á Sauðárkróki árið 1986, BA-prófi í hagsögu með viðskiptafræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands árið 1992 og meistaraprófi í fiskifræði og stærðfræðilegri tölfræði frá Oregon State University í Bandaríkjunum árið 1996. Hann stundar nú meistaranám í forystu og stjórnun, með áherslu á sjálfbæra stjórnun, við Háskólann á Bifröst samhliða öðrum störfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert