Ólína vill leiða lista Samfylkingarinnar

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir hefur ákveðið að gefa kost á sér í fyrsta sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi sem fram fer dagana 8. – 10. september.

Ólína var kjörin á þing árið 2009 fyrir Samfylkinguna í Norðvesturkjördæmi og sat þar til ársins 2013. Hún tók aftur þingsæti síðasta haust við fráfall Guðbjarts Hannessonar, fyrrverandi velferðarráðherra.

Hún segist í framboðstilkynningu þekkja þau mál sem brenna á byggðum landsins af eigin raun. Vill hún beita sér fyrir bættum lífskjörum og afkomu íbúa landsbyggðarinnar.

„Ég er jafnaðarmaður að hugsjón, set fólk í fyrirrúm og brenn fyrir jöfnuð, réttlæti og sanngjarnar leikreglur í samfélagi okkar. Mín helstu baráttumál hafa verið breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, bættar samgöngur og velferðarmál. Ég vil að Ísland sé eitt samfélag fyrir alla þar sem …

· hver maður fær að gefa eftir getu og þiggja eftir þörfum;

· gott og gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi, sterkt menntakerfi og traust og skilvirt almannatryggingakerfi eru við lýði.

· byrðum er dreift á herðar þeirra sem geta borið þær;

· enginn maður þarf að óttast afkomu sína vegna örorku, aldurs eða fötlunar;

· þjóðarauðlindir eru nýttar í þágu samfélagsins og öflugra atvinnugreina;

· mannréttindi og atvinnufrelsi eru ófrávíkjanleg krafa;

· markaðurinn er þjónn en ekki herra – heilbrigt samkeppnisumhverfi ríkir í öllum atvinnugreinum,“ segir hún í framboðstilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert