Bað ekki um að vera færð ofar á listann

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Unnur Brá Konráðsdóttir verður í fjórða sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í komandi þingkosningum. Hún segir að sér lítist vel á baráttuna fram undan, en segja má að hún sé í baráttusæti enda flokkurinn með fjögur þingsæti í kjördæminu.

Ekki voru gerðar breytingar á listanum með tilliti til athugasemda um að jafna kynjahlutföll. Unnur var reyndar færð upp úr fimmta sæti í það fjórða eftir að Ragnheiður Elín Árnadóttir hafnaði fjórða sætinu, en hún hafði áður leitt listann. Talsverð umræða kom upp eftir prófkjör flokksins í bæði Suður- og Suðvesturkjördæmum, en karlar voru þar í öllum efstu sætum listans. Ályktaði Landssamband sjálfstæðiskvenna meðal annars að jafna ætti kynjahlutföllin. 

Unnur segir sjálf að hún hafi ekki farið fram á að slíkt yrði gert og að þegar horft sé á listann í heild sinni sé fjölbreytnin mikil. „Þeir fengu afgerandi kosningu í þrjú efstu sætin, meðal annars er fulltrúi ungra sjálfstæðismanna í þriðja sæti. Ég fór ekki fram á breytingu,“ segir Unnur og bætir við að henni hefði ekki heldur líkað ef slíkt hefði verið gert þegar hún náði öðru sæti listans fyrir síðustu kosningar.

Unnur segir að mikilvægt sé að listinn sýni breidd og ef Sjálfstæðisflokkurinn nái fjórum sætum í kjördæminu á ný séu þar ein reynslumikil kona, fulltrúi ungra og svo tveir aðrir karlmenn.

Fram undan segir hún að taki við ferðalög um kjördæmið og að áherslan verði á hvað Sjálfstæðisflokkurinn hafi gert á kjörtímabilinu og hvað eigi að gera í framtíðinni. „Þetta snýst um að tryggja að gildin okkar verði ofan á,“ segir hún og segist spennt að takast á við enn eina baráttuna, en þetta er fjórða skiptið sem Unnur Brá fer í gegnum prófkjör og kosningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert