Metur mikils áskoranir til framboðs

Forsætisráðherra á blaðamannafundi skömmu fyrir hádegi í dag.
Forsætisráðherra á blaðamannafundi skömmu fyrir hádegi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segist meta mikils þær áskoranir sem hann hefur fengið til formannsframboðs í Framsóknarflokknum, gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni núverandi formanni. Hann vill þó ekki svara því að sinni hvort hann muni gangast við þeim.

Frétt mbl.is: Fjórða félagið sem skorar á Sigurð Inga

„Ég met það auðvitað mikils að störfum mínum fylgi það traust að fólk vilji skora á mig til frekari starfa,“ segir Sigurður Ingi í samtali við mbl.is. Þá sé hann ávallt reiðubúinn til að takast á við þau verkefni sem Framsóknarflokkurinn treysti honum fyrir.

„Ég hef líka sagt að ég styðji þá forystu sem flokksmenn kjósa,“ bætir hann við.

Aðspurður vildi Sigurður Ingi ekki svara því hvort hann hefði lofað Sigmundi að bjóða sig ekki fram gegn honum, líkt og Sigmundur hefur nýlega fullyrt.

„Um þessi mál mun ég lítið tjá mig þessa vikuna, við erum að fara inn í kjördæmisþing í mínu kjördæmi á laugardaginn, og ég vil frekar tala fyrst við fólkið í flokknum áður en ég ræði við fjölmiðla.“

Sigurður Ingi býður sig fram til fyrsta sætis á lista Framsóknarflokks í Suðurkjördæmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert