Vilja besta heilbrigðiskerfi í heimi

Sig­ríður Ingi­björg Inga­dótt­ir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Sig­ríður Ingi­björg Inga­dótt­ir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Öllum er ljóst að efla þarf heilbrigðiskerfið og núverandi ríkisstjórn hefur í samningum við lækna lofað bót og betrun. Við þetta loforð hefur hún ekki staðið,“ sagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir í eldhúsdagsumræðum á Alþingi rétt í þessu.

Gerði hún heilbrigðismál að sérstöku umræðuefni og sagði að þrátt fyrir undirskriftir 86 þúsund Íslendinga gerðu áætlanir ríkisstjórnarinnar ekki ráð fyrir viðunandi uppbyggingu í heilbrigðismálum.

„Um þetta eru allir sem til þekkja sammála. Íslenskir læknar vildu samkeppnishæf laun við lækna á Norðurlöndunum. Það fengu þeir. Íslenskur almenningur vill einnig sambærilegt heilbrigðiskerfi og almenningur á Norðurlöndunum býr við. Það hefur íslenskur almenningur ekki enn fengið og mun ekki fá ef núverandi ríkisstjórn heldur velli,“ sagði hún. „Við í Samfylkingunni ætlum að byggja upp besta heilbrigðiskerfi í heimi og biðjum kjósendur um að veita okkur umboð til þess.“

Vill setja miklu meiri peninga í heilsugæsluna

Sagði hún að flokkurinn vildi setja miklu meiri peninga í heilsugæsluna, og einnig stórefla hlutverk hennar í sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustu. „Við ætlum að stytta biðlista þannig að enginn þurfi að bíða lengur en þrjá mánuði eftir viðeigandi aðgerð eða þjónustu. Við viljum bjóða upp á gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu og þar eru fyrstu skrefin að lækka kostnað þeirra sem eru alvarlega veikir og langveikir.“

Sagði hún að öflugir ríkisreknir spítalar væru lykillinn að besta heilbrigðiskerfi í heimi. Samfylkingin hafni því frekari einkavæðingu í heilbrigðismálum. 

Hækka þurfi greiðslur almannatrygginga

Þá sagði hún að það væri skammarlegt að þeir sem minnst hafa fái 185.692 kr. í vasann á mánuði úr lífeyrisgreiðslum almannatrygginga. „Við ætlum að hækka greiðslur almannatrygginga strax og greiða fólki afturvirkt til 1. maí 2016 svo tekjur eldri borgara og öryrkja fylgi þróun á vinnumarkaði. Við höfum lagt fram tillögur um 300.000 kr. fyrir lífeyrisþega á sama tíma og launafólk og ætlum að afnema hinar alræmdu krónu á móti krónu skerðingar, líka fyrir öryrkja. Þessar tillögur okkar hafa stjórnarflokkarnir fellt ekki bara einu sinni, heldur þrisvar sinnum á kjörtímabilinu.“

Þá vilji flokkurinn tvöfalda stuðning við barnafjölskyldur með hækkun barnabóta og betra fæðingarorlofskerfi. „Hámarksgreiðslur verða 600.000 og fæðingarorlofið lengt í 12 mánuði. Við lengdum reyndar fæðingarorlofið undir lok síðasta kjörtímabils en það var eitt af fyrstu verkum hægristjórnarinnar að stytta það aftur í 9 mánuði. Það var gert um svipað leyti og þau lækkuðu veiðigjöld á útgerðina.“

Loks vék hún að því að 1% landsmanna ættu 507 milljarða í hreinni eign, og margir ættu eignir í skattaskjólum sem bættust ofan á þessar eignir. „Í þeirra hópi eru forystumenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Við í Samfylkingunni vinnum ekki fyrir skattaskjólsfólkið heldur venjulegt fólk. Skattaskjólsfólkið lækkaði veiðigjöld á útgerðina, afnam sérstakan raforkuskatt á stóriðju, lækkaði virðisaukaskatt á ferðaþjónustu og afnam auðlegðarskatt á ríkasta fólkið. Við í Samfylkingunni viljum nota þessa peninga í þágu okkar allra því við viljum heilbrigðara samfélag.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert