VG og Píratar hnífjöfn

Við þinglok á Alþingi í gær.
Við þinglok á Alþingi í gær. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Sjálfstæðisflokkur fengi 21,5% atkvæða, Vinstri græn 17,7% og Píratar 17,5% ef gengið yrði til alþingiskosninga í dag. Þetta er niðurstaða könnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir Morgunblaðið dagana 6.-12. október.

Viðreisn hlyti 11,4% atkvæða, Framsóknarflokkur 8,6%, Björt framtíð fengi 7,7% og Samfylking 6,9%.

Aðrir flokkar næðu ekki manni inn á þing, en samanlagt fylgi þeirra er 8,6%. Þeir flokkar eru Alþýðufylkingin, Dögun, Flokkur fólksins, Flokkur heimilanna, Húmanistaflokkurinn og Íslenska Þjóðfylkingin.

Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi og mælist nú með um 21% samanborið við 26% í síðustu könnun sem birt var þann 6. október síðastliðinn.

Björt framtíð er hástökkvari vikunnar og mælist hún með 7,7% fylgi.

Fylgi Pírata minnkar um 2,3 prósentustig og fylgi Vinstri grænna eykst um 1,2 prósentustig frá síðustu könnun en um þriggja prósenta munur er nú á fylgi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Munurinn er ekki marktækur, en einnig mælist lítil hreyfing á fylgi annarra flokka en Bjartrar framtíðar, Sjálfstæðisflokks, Pírata og Vinstri grænna.

 Hreyfing á fylgi flokkanna

Björt framtíð fær fjóra menn kjörna, samkvæmt könnuninni. Píratar tapa þremur mönnum og Sjálfstæðisflokkur tveimur. Samfylkingin bætir við sig einum manni frá síðustu könnun Félagsvísindastofnunar. Nokkrir fulltrúar þeirra flokka sem næðu mönnum inn á þing samkvæmt könnuninni líta til þeirra tveggja vikna sem eru til kosninga og segja fylgið enn á miklu flökti.

Lýðfræðileg dreifing fylgisins er mjög ólík eftir flokkum og athygli vekur að flestir þeirra sem telja mjög líklegt að þeir mæti á kjörstað segjast styðja Sjálfstæðisflokk en flestir þeirra sem segja ekki mjög líklegt að þeir kjósi segjast styðja Pírata.

Úrtak könnunarinnar var 2050 manns og var svarhlutfall nú 59,5% en hafði verið 57% í síðustu könnun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert