Kjörstöðum lokað og talning hafin

mbl/Eggert

Kjörstöðum hefur nú verið lokað og von er á fyrstu tölum frá kjörstjórnum innan skamms. Tólf stjórnmálaflokkar bjóða fram lista í alþingiskosningum 2016 en niðurstöður skoðanakannana benda til þess að sjö flokkar nái á þing.

Fylgi þeirra flokka sem mælst hafa með yfir 5% fylgi í könnunum hefur sveiflast mikið síðustu mánuði. Einnig hefur verið mikill munur á fylgi eftir því hver framkvæmir könnunina. 

Sjálfstæðisflokkur mælist stærstur með 27% fylgi í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup og Píratar næststærstir með 17,9%. Mun minni munur er á fylgi þessara flokka í síðustu könnun Félagsvísindastofnunar HÍ sem kom á föstudag en þar mældist Sjálfstæðisflokkur með 22,5% og Píratar með 21,2%. 

Fylgi flokka hefur sveiflast talsvert í könnunum undanfarna mánuði
Fylgi flokka hefur sveiflast talsvert í könnunum undanfarna mánuði Graf/mbl.is

Vinstri græn bæta við sig miklu fylgi frá því í kosningunum 2013 og hafa mælst þriðji stærsti flokkurinn með 16,5% og 16,8% fylgi í nýjustu tveimur könnunum. Heldur meiri munur er á fylgi Viðreisnar eftir því á hvora þessara kannana er horft. Viðreisn fær 11,4% í könnun Félagsvísindastofnunar HÍ en 8,8% í Þjóðarpúlsi Gallup.

Útlit er fyrir að Framsóknarflokkur fái vel innan við helming fylginu sem hann fékk í kosningum 2013. Samfylkingin, sem nú er þriðji stærsti flokkurinn á þingi, mælist minnstur flokka með 5,7% í könnun Félagsvísindastofnunar með innan við helming af fylgi sem hann fékk 2013 en er með heldur meira í Þjóðarpúlsinum eða 7,4%.

Björt framtíð hefur heldur bætt við sig í könnunum undanfarið en missir þó fylgi miðað við síðustu kosningar þegar flokkurinn var með 8,2% fylgi.

Verði niðurstaða kosninga í samræmi við nýjustu könnun Félagsvísindastofnunar HÍ fengi Sjálfstæðisflokkur 16 þingmenn, Píratar 14, Vinstri græn 11, Viðreisn 7, Framsóknarflokkur 7, Björt framtíð 4 og Samfylkingin 4.

Sé hins vegar Þjóðarpúls Gallup vísbending um niðurstöðu kosninga fengi Sjálfstæðisflokkur 19 þingmenn, Píratar 12, Vinstri græn 11, Framsóknarflokkur 6, Viðreisn 6, Samfylkingin 5 og Björt framtíð 4.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert