Sjá ekki fyrir sér samstarf með Sjálfstæðisflokki

Katrín skilaði atkvæði sínu rétta leið í Vesturbæ Reykjavíkur í …
Katrín skilaði atkvæði sínu rétta leið í Vesturbæ Reykjavíkur í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er mjög sátt við þennan árangur,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í samtali við mbl.is. Flokkurinn fékk 15,9% atkvæða í alþingiskosningunum og bætir við sig þremur þingmönnum frá því á síðasta kjörtímabili.

Ég tel að kosningabaráttan, sem var lokahnykkurinn á mikilli vinnu innan okkar raða, hafi tekist vel og okkar málflutningur um aukinn jöfnuð, umhverfisvernd og uppbyggingu innviða hafi skilað sér og fengið hljómgrunn hjá fólki,“ bætir Katrín við.

Hún segir ekkert augljóst varðandi stjórnarmyndunarviðræðurnar framundan. „Þetta er náttúrlega orðinn mikill samkvæmisleikur því það er ekkert augljóst; stjórnin fallin og stjórnarandstaðan ekki með meirihluta. Ég tala fyrst og fremst fyrir því núna að við hugsum um þessi úrslit. Mér finnst þetta vera ákall um fjölbreyttari raddir; nú eru komnir sjö flokkar inn á þing þannig að við erum með fjölbreyttara litróf en áður. Það væri mikilvægt að ný ríkisstjórn endurspeglaði það með einhverjum hætti og auðvitað störf okkar á þinginu.

Aðspurð segist Katrín að VG hafi talað fyrir samstarfi stjórnarandstöðuflokkanna. „En það virðist ekki í spilunum. Við höfum líka sagt að við teljum nánast enga málefnalega samleið með okkur og Sjálfstæðismönnum og það hefur ekkert breyst í því. Eins og ég er búin að segja, þetta eru þeir flokkar sem standa lengst frá hvor öðrum í íslenskum stjórnmálum. Við sjáum ekki fyrir okkur slíkt samstarf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert