Hefðum getað verið valkosturinn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og eiginkona hans, Anna Sigurlaug Pálsdóttir koma …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og eiginkona hans, Anna Sigurlaug Pálsdóttir koma inn á kosningavöku flokksins á Akureyri í kvöld. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þetta er að færast í rétta átt hjá okkur, það er alls ekki útilokað að við bætum við okkur þriðja manni [í kjördæminu] þegar líður á kvöldið. Það er þó jákvætt að hér í okkar kjördæmi sé þetta að færast í rétta átt,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og frambjóðandi í Norðausturkjördæmi, í viðtali við fréttamann RÚV á kosningavöku Framsóknar á Akureyri í nótt. 

Framsóknarflokkurinn var með 10,4% fylgi á landsvísu klukkan rúmlega 3 í nótt. Í kjördæmi Sigmundar, Norðausturkjördæmi, er fylgið hins vegar tæp 17%.

Spurður hvort  hann gæti tekið undir að fylgi Framsóknarflokksins á landsvísu væri slakt svaraði Sigmundur: „Það er nú eiginlega ekki hægt annað, þegar flokkurinn stefnir í að fá minnsta fylgi í hundrað ára sögu sinni, á hundrað ára afmælinu. Það er öðruvísi en maður hefði viljað sjá það.“

Sigmundur Davíð sagði eflaust hægt að leita ýmissa skýringa á fylgistapinu. „Sumar eru held ég nokkuð augljósar. Aðrar krefjast frekari yfirlegu. En menn munu eflaust velta þessu fyrir sér í framhaldinu.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gengur inn á kosningavöku Framsóknarflokksins á Akureyri …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gengur inn á kosningavöku Framsóknarflokksins á Akureyri í gærkvöldi. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Spurður hvort  hann teldi að fylgi flokksins myndi nægja til halda áfram í ríkisstjórn svaraði Sigmundur Davíð að það yrði að meta í fyrramálið þegar endanleg niðurstaða lægi fyrir. „Það er alveg ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að styrkja stöðu sína mjög á síðustu dögum með þeim atburðum sem hafa orðið og hefur stór hluti kjósenda ákveðið að reyna að forðast þá hættu sem var að birtast í Píratastjórn.“

Sigmundur sagði að Framsóknarflokkurinn hefði getað, „ef öðruvísi hefði verið haldið á málum“, verið sá valkostur frekar en Sjálfstæðisflokkurinn. 

„Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum að það hafa orðið atburðir í flokknum að undanförnu og sú atburðarás raunar staðið vikum eða mánuðum saman. Við þær aðstæður er kannski ekki að vænta mikillar fylgisaukningar.“

Hér má sjá viðtalið við Sigmund á myndskeiði á vef RÚV.

Staðan kl. 3.49 í Norðausturkjördæmi.
Staðan kl. 3.49 í Norðausturkjördæmi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert