Fylgishrun hjá Samfylkingu

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingar í borginni.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingar í borginni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samfylkingin í borginni mælist með tæplega helmingi minna fylgi í nýrri könnun heldur en hún fékk í borgarstjórnarkosningunum árið 2014.  Núverandi borgarstjórnarmeirihluti heldur hins vegar velli yrði niðurstaða könnunarinnar úrslit næstu kosninga. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Samfylkingin myndi tapa einum borgarfulltrúa þrátt fyrir fjölgun þeirra úr fimmtán í 23 næst þegar kosið verður. Samfylkingin fékk 31,9 prósent í kosningunum 2014 en mælist með rétt rúm 17 prósent í könnuninni. Fylgi flokksins í borginni er þrefalt miðað við úrslit þingkosninganna fyrr í haust.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist langstærstur með um 32 prósent í könnun Fréttablaðsins. Verði niðurstaða könnunarinnar úrslit kosninganna myndi Sjálfstæðisflokkurinn fá átta borgarfulltrúa, Samfylking og VG fjóra hvor flokkur, Píratar og Björt framtíð fengju þrjá borgarfulltrúa og Framsóknarflokkurinn rétt nær inn manni í borgarstjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert