Allt er þegar þrennt er

Benedikt Jóhannesson var brosmildur á fundinum í kvöld.
Benedikt Jóhannesson var brosmildur á fundinum í kvöld. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta var samþykkt samhljóða með lófataki og handauppréttingu og allir voru sáttir,“ sagði Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, eftir að ráðgjafaráð flokksins samþykkti stjórnarsáttmála fyrirhugaðrar ríkisstjórnar Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar í kvöld.

Benedikt sagðist almennt ánægður með það sem kæmi fram í stjórnarsáttmálanum en þar væri að finna ýmis kjarnamál Viðreisnar. „Við getum þar nefnt jafnréttismál, áherslu á heilbrigðismál, áherslu á bætta menntun. Peningastefnan verður endurskoðuð og það er opnað á endurskoðun á auðlindagjaldinu í sjávarútvegi og það er opnun í landbúnaði. Þannig að mjög víða eru mál sem við erum mjög spennt fyrir sett í forgang.“

ESB-máli vísað til þingsins

Mikið hefur verið rætt og ritað um Evrópumálin en Benedikt sagði það ekkert leyndarmál að flokkarnir væru ekki samstíga í þeim efnum. „Evrópusambandsmálinu er vísað til Alþingis. Það er vel þekkt að ekki er samstæður meirihluti þessara flokka í því máli og þetta hefur verið frekar djúpstæður ágreingur um þessi mál. Formaður Sjálstæðisflokksins kom með þessa tillögu; að vísa málinu til þingsins og mér fannst það að mörgu leyti sanngjarnt að þingræðið ræður því.

Spurður hvort Evrópumálin hafi verið erfiðust í viðræðum flokkanna sagði Benedikt að það hafi verið eitt af erfiðustu málunum. „Ég veit ekki hvað á að segja. Það var eitt af þeim málum sem var mjög djúpstæður ágreiningur um. Við vissum það og ýttum því framar og það var þá eitt af því sem við vorum tiltölulega snemma búin með. En þetta tók allt saman þrjár viðræður.“

Ráðherrar og ríkisstjórn kynnt á morgun

Benedikt sagði að sáttmálinn yrði kynntur sérstaklega á morgun og ný ríkisstjórn annað kvöld. Hann gat þó ekki svarað því hverjir verða ráðherrar fyrir hönd Viðreisnar. „Það er ekki alveg fullfrágengið, við ætluðum að reyna að reyna að ganga frá þeim málum í dag en það gafst ekki alveg tími til þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert