Annar „Panama“-forsætisráðherrann

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata.
Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ástu Guðrúnu Helgadóttur, þingmanni Pírata, þykir stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar heldur rýr. Henni þykir skjóta skökku við að forsætisráðherra nýrrar stjórnar hafi verið í Panama-skjölunum.

Það kemur sérstaklega á óvart að þessir tveir miklu Evrópuflokkar, sem Björt framtíð og Viðreisn þykjast vera, hversu lítið er talað um Evrópusambandið. Það er svolítið áhugavert að sjá það og það eru vonbrigði komandi frá þeim,“ segir Ásta Guðrún um stjórnarsáttmálann sem formenn ríkisstjórnarflokkanna undirrituðu í dag.

Frétt mbl.is: Svona verður skipting ráðuneyta

Rætt hefur verið um að Píratar ætli að lýsa yfir vantrausti á hina nýju ríkisstjórn. Ásta Guðrún segir of snemmt að segja til um slíkt. „Þetta er gott sem annar forsætisráðherrann í röð sem hefur verið í Panama-skjölunum og svo ekki sé minnst á skýrslumálið sem er greinilega eitthvað sem þarf að rannsaka frekar. Ríkisstjórn sem byrjar með svoleiðis bagga byrjar veikt.

Þarf að fara almennilega yfir þessi mál

Henni þykir það furðulegt að Bjarni Benediktsson verði forsætisráðherra þegar nafn hans hafi komið upp í Panama-skjölunum en þingkosningum var flýtt vegna þeirra skjala. „Það skýtur svolítið skökku við. Þau þurfa að eiga það við sína samvisku en þetta er svolítið lýsandi fyrir það hversu lítið er búið að gera upp þetta mál.

Ásta Guðrún segir að skýrslan um skattaskjól sé almenns eðlis og það þurfi að fara betur yfir þessi mál. „Við erum að tala um ákveðna embættismenn, ráðherra, sem voru í þessum skjölum. Skýrslan er bara almennt um skattaskjól en ekki um ákveðna aðila. Mér þætti eðlilegt að mynda þingnefnd sem myndi fara almennilega yfir þessi mál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert