Stóð ekki til að styðja eigin fjárlög

Páll Magnússon er formaður atvinnuveganefndar.
Páll Magnússon er formaður atvinnuveganefndar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir aldrei hafa staðið til að Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti ýmsar skattahækkunartillögur fjármálaráðherra sem fram komu í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, óbreyttar. Þetta kom fram í ræðu hans á kosningafundi flokksins í hádeginu.

Páll sagði Sjálfstæðisflokkinn standa fyrir frelsi einstaklings til athafna og skynsamlegum takmörkunum á umsvifum ríkisins. Vísaði Páll í ræðu sína frá þingi þar sem hann spurði hvort aldrei mætti lækka skatta, bara hækka. Þar benti hann á að á síðustu tíu árum hefðu hrein rekstrarútgjöld ríkisins aukist um 142 milljarða króna að raunvirði. Hefur Sjálfstæðisflokkurinn þó setið í ríkisstjórn meirihluta þess tíma.

Hann sagði enn fremur fyrirsjáanlegt að flokksmenn yrðu á næstu vikum spurðir út í hvort flokkurinn hafi ekki verið búinn að samþykkja fjárlagafrumvarpið sem Benedikt Jóhannesson lagði fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar einungis nokkrum dögum fyrir stjórnarslit, þar sem boðaðar voru hækkanir á bensíni og virðisaukaskatti á ferðaþjónustu. „Svarið er nei. Engin af þeim tillögum hafði hlotið afgreiðslu í þeim þingnefndum sem eru undir forystu Sjálfstæðismanna. Fjármálaráðherra var líka fullkunnugt um að engin þeirra færi óbreytt í gegn með stuðningi Sjálfstæðismanna.“

Hækkanir á olíugjaldi, sem Páll vísar til, eru þó einmitt liður í loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar sem Bjarni Benediktsson talaði um á fundinum og lýsti sem metnaðarfyllstu áætlun sinnar tegundar á Íslandi. Þá var grænna skatta á ökutæki sérstaklega getið í stjórnarsáttmála.

Pólitískt hugleysi felldi stjórnina

Páll gerði stjórnarslitin einnig að umtalsefni. Hann sagði nú ljóst að ekkert væri á bak við ríkisstjórnarslitin nema pólitískt hugleysi þeirra flokka sem Sjálfstæðisflokkurinn fór með í ríkisstjórn. Tók hann fram að ríkisstjórnin hefði ekki verið mynduð af ástríðu heldur skyldurækni. „Það kom á daginn sem marga okkar grunaði, að líftími þessarar ríkisstjórnar réðist fremur af því hvernig þessir tveir litlu flokkar brygðust við er fylgið færi að flæða undan þeim í könnunum, en því hvað Sjálfstæðisflokkurinn gerði. Sumir eru svo hræddir við dauðann að þeir missa af lífinu,“ sagði Páll. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert